Frjáls leikur barna hefur minnkað: „Grunnurinn verður að vera sterkur“

Fulltrúar frá UMFÍ standa fyrir fjöri og fróðleik á Austurlandi um helgina, en þau Jörgen Nilsson og Sabína Steinunn Halldórsdóttir verða með skemmtileg og fræðandi námskeið víðs vegar um fjórðunginn.



Námskeiðin verða á Vopnafirði, Norðfirði og Egilsstöðum og eru frábær fyrir þjálfara, kennara, foreldra, afa og ömmur og alla sem vilja takast á við lífið með jákvæðnina að leiðarljósi og auka á leikgleði og gáska fólksins í kringum sig. Dagskrána í heild sinni má lesa hér, á síðu viðburðarins. 

Jörgen er tómstundafulltrúi UMFÍ og verður með erindi um jákvæða sálfræði og leikgleði. Þar ræðir hann um mikilvægi þess að líta jákvæðum augum á verkefni og hindranir, auk þess að kenna ýmiskonar hópeflisleiki og sprell sem eru vel til þess fallin að auka á leikgleði og kæti.

Sabína Steinunn er með master í íþrótta- og heilsufræðum með áherslu á hreyfingu barna og ungmenna. Hún er landsfulltrúi UMFÍ og verður með erindin „Færni til framtíðar“ og Sýndu hvað í þér býr“. Í Færni til framtíðar fjallar Sabína Steinunn um gildi útivistar og hreyfingar í uppeldi barna en í „Sýndu hvað í þér býr“ fer hún yfir ýmsa þætti er tengjast ræðumennsku eins og að taka til máls, framkomu, ræðuflutning, raddbeitingu, skipan ræðu og fleiru sem þessu tengist.


Frjáls leikur hefur minnkað á kostnað aukins skipulags

„Þetta er mín ástríða, en grunnurinn var lagður þegar ég var í náminu mínu í Noregi,“ segir Sabína Steinunn.

„Í Noregi voru kjöraðstæður til að sameina útivist og hreyfingu enda fór námið að mestu fram utandyra. Umhverfið var svo allt annað þegar ég kom heim að námi loknu, en ég ákvað samt strax að horfa ekki á það sem vandamál heldur tækifæri.

Það sem íslendingar hafa fram yfir aðrar þjóðir er þessi rótgróna hefð að börn leika sér úti og meira að segja sofa úti sem ungabörn.

Frjáls leikur hefur þó því miður minnkað mikið á kostnað skipulags starfs af öllu tagi, bæði í leikskólum, skólum og á heimilinum. Það er allt sem mælir með hreyfingu og samverustundum úti í náttúrunni, bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu,“ segir Sabía Steinunn.


Foreldrar og forráðamenn sterkustu fyrirmyndirnar

„Lógóið mitt skýrskotar til þessa sem og mikilvægi samverustunda barna og forráðamanna, en það er grænt og myndar tvær hendur, fullorðins og barns.

Foreldrar og forráðamenn eru helstu og sterkustu fyrirmyndirnar og þau börn fá reglulega tækifæri til að leika frjálst úti í náttúrunni búa við betra hreysti en þau börn sem fá það ekki auk þess sem þeir foreldrar sem eru virkir í hreyfingu og njóta útiveru reglulega auka lýkurnar á því að barnið þeirra viðhaldi slíkum lífsmáta út ævina. Þetta er bara eins og að byggja hús, grunnurinn verður að vera sterkur.

Þeir eru einnig sterkustu fyrirmyndir varðandi snjalltækjanotnun er farin að taka allt of mikinn tíma. Við vitum öll að tæknin er ekkert að fara, heldur er þetta frekar spurning um að setja einhvern kvóta – bæði á notkuninni og einnig að auka hreyfingu á móti.“

Síðu Sabínu Steinunnar, Færni til framtíðar má sjá hér

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.