
Guðjón Sveinsson hefur sérstöðu meðal austfirskra höfunda
Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur gefið út úrval ljóða eftir Guðjón Sveinsson í tilefni af 80 ára afmæli hans og 50 ára höfundarafmæli. Formaður félagsins segir ljóð Guðjóns faldar gersemar.Bókin heitir „Þegar skó af skönkum dreg – við skapadóm“ og er úrval úr sex ljóðabókum sem Guðjón sendi frá sér á ferlinum. Hann er reyndar þekktastur fyrir barna- og ungmennabækur sínar en skrifaði meira fyrir fullorðna eftir því sem árin færðust yfir.
„Barna- og unglingabækurnar hans standa upp úr enda var hann meðal þekktustu og vinsælustu barnabókahöfunda un langt árabil. Hann söðlaði svolítið um á níunda áratugnum og fór að skrifa meira fyrir fullorðna,“ segir Magnús Stefánsson, formaður Félags ljóðaunnenda sem hafði umsjón með útgáfunni.
„Guðjón á glæsilegan feril og seinni hluta skáldævinnar var hann alfarið starfandi rithöfundur. Það og vinsældir barnabóka hans marka honum sérstöðu meðal austfirskra rithöfunda.“
Fyrsta ljóðabók Guðjóns heitir „Með eitur í beinum“ og kom út árið 1991. Hún var safn ljóða sem Guðjón orti á árunum 1983-1985 þegar hann barðist við alvarleg veikindi. „Ég hafði ekki lesið bókina síðan hún kom út. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað hún var góð þegar ég fór að lesa hana aftur.“
Næstu tvær ljóðabækur helgaði Guðjón konu sinni en þær síðustu þrjár heita Litir og ljóð. Þær eru uppbyggðar þannig að ljósmynd, gjarnan úr Breiðdal, er á vinstri síðu, en ljóð á þeirri hægri. Að auki eru í nýju bókinni nokkur áður óbirt ljóð.
Magnús segir að í nokkur ár hafi verið rætt um að gefa út ljóð Guðjóns en hann sjálfur enn léð máls á því meðan hann sat í stjórn félagsins en Guðjón var gjaldkeri þess fyrstu 15 starfsárin.
„Honum fannst ekki við hæfi að við gæfum út eftir stjórnarmann. Hann er hættur í henni fyrir nokkru og við vildum nota tækifærið í tilefni þessara tveggja stórafmæla.“
Bókin er sú sautjánda í flokknum austfirsk ljóðskáld og númer 32 í röðinni í útgáfu félagsins. Fyrr á árinu stóð félagið að baki útgáfu á fyrstu ljóðabók Jóhanns Clausen „50 blæbrigði af bölsýni.“
Einkennisplöntur Austurlands
Ekki er þar með upptalin þær bækur sem Magnús hefur haft fingurna í á árinu en hann hafði umsjón með útgáfu nýjustu bókar Helga Hallgrímssonar „Vallarstjörnur“. Bókin er gefin út af Útgáfufélagi Glettings þar sem Magnús er einnig formaður.
Bókin inniheldur safn greina sem Helgi hafði áður birt í Glettingi um 14 einkennisplöntur Austurlands.
„Við heyrðum á Helga fyrir tveimur árum að hann langaði til að gefa þessar greinar út og okkur í stjórn félagsins fannst einboðið að það gæfi hana út. Helgi var formaður útgáfufélagsins um árabil og það hefur enginn skrifað jafn mikið í blaðið,“ segir Magnús sem er ánægður með hvernig til hefur tekist.
„Bókin vakti athygli á Bókamessunni í Hörpunni enda er Helgi vel þekktur um allt land. Mér finnst útgáfan hafa lukkast ákaflega vel.“