Hægasti staður Íslands

Austurland er kallað hægasta svæði Íslands í umfjöllun ferðavefs about.com um Austurland. Austfirðingar eru þar sagðir vera að læra af mistökum annarra Íslendinga af holskeflu ferðamanna.


„Við sáum að menn höfðu engan tíma til undirbúnings. Þess vegna skiptir okkur máli að greina svæðið okkar ítarlega og lífsstíl okkar til að laða að fólkið sem vill upplifa það,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Hún segir frá verkefninu um Áfangastaðinn Austurland sem greinarhöfundur segir endurspegla hæglætis líf Austfirðinga. „Markmið okkar er að verða fyrsta flokks staður til að heimsækja og búa á,“ segir María.

Blaðamaðurinn virðist hrífast sérstaklega af Djúpavogi sem er hluti af hinni alþjóðlegu hæglætiskeðju Cittaslow.

„Ég held að menn séu alltaf að leita að einhverju einstöku. Gestir vilja upplifa að þeir séu einhvers staðar allt annars staðar en í sínum heimabæ,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.

Hann hafnar því að Djúpivogur hafi gerst aðili að Cittaslow til að markaðssetja sig í augum ferðamanna. Hugmyndafræðin sé einkum nýtt fyrir heimamenn. Hann nefnir dæmi um umsóknum um fjórhjólaferðir á söndunum og heimsóknir skemmtiferðaskipa í Papey hafi verið hafnað.

Nú sé unnið að því í nýju skipulagi að fjarlægja bíla úr miðbænum. „Áður vildu allir hafa bensínstöðina í miðjum bænum til að fá umferðina. Það viljum við ekki. Við viljum að hér sé eitthvað að sjá eða gera þannig fólk komi til bæjarins á þeim forsendu.“

Greinarhöfundur heimsækir einnig lífræna búið á Vallanesi á Héraði og Óbyggðasetrið í Fljótsdal þar sem gengið sé inn í fortíðina.

Hann bendir á að fæstir þeirra ferðamanna sem komi til Íslands stefni beint austur. Fjarlægðin sé hins vegar það eina sem hægi á straumnum austur. Heimamenn nýti tækifærið til að meta hvernig þeir kynni heimkynni sín fyrir umheiminum.

„Svæðið skiptir ekki um ham til að þýðast gestum sínum. Austurland verður áfram einstakur áfangastaðir – einn af þeim sem virði er að hægja niður fyrir og staldra við á.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.