
Hæst dæmdu hrútarnir úr Eiðaþinghá og af Völlum
Hæst dæmdu lambhrútarnir í Múlasýslum í haust komu frá bæjunum Hjartarstöðum í Eiðaþinghá og Víkingsstöðum og Lundi á Völlum.Þetta kemur fram í yfirliti í Bændablaðinu yfir fimm hæst dæmdu lambhrútana í hverju héraði.
Hrútarnir þrír fá allir 89,5 stig en sá frá Hjartarstöðum er settur efstur í töflunni þar sem hann er með þykkari bakvöðva, 38 mm. Faðir hans er Ofur-Máni.
Hrúturinn frá Víkingsstöðum er sæðislamb undan Kjarna sem er faðir allmargra hrúta í töflu bændablaðsins. Árangur þessara hrúta er eftirtektarverður þar sem þeir eru fremur léttir, sá frá Hjartarstöðum 44 kg en 48 kg frá Víkingsstöðum.
Hrúturinn frá Lundi vegur hins vegar 65 kg. Hann er undan Krapa sem er á sæðingastöð.
Bændur á Víkingsstöðum mega vel við una því þeir eiga einnig hrútinn í fjórða sæti. Sá er einnig sæðislamb undan Magna.
Í Norður-Múlasýslunni geta bændur á Hvanná 2 á Jökuldal brosað breitt því tveir hrútar undan heimahrútnum Rjóma eru þar efstir með 88,5 í einkunn. Þeir eru engin smásmíði, 60 og 64 kg.
Sömu einkunn fær einnig hrútur frá Tjarnarlandi undan Burkna sem er á sæðingastöð.