Skip to main content

Hálendisvakt björgunarsveitanna hafin: Í þetta fer sumarfríið

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2016 14:54Uppfært 04. júl 2016 14:55

Hálendisvakt björgunarsveitanna hófst um helgina. Áður en haldið var á fjöll stóðu félagar í björgunarsveitunum vaktina í þéttbýli og dreifðu áminningum til ökumanna um að láta símann vera undir stýri.


Félagar úr Jökli á Jökuldal og Ísólfi á Seyðisfirði voru við Olís í Fellabæ seinni part föstudags. Fylgst var með ökumönnum og þeim afhentir miðar til áminningar um að láta símana eiga sig en sá sem er í síma undir stýri er 23 sinnum líklegri til að valda slysi en sá sem er það ekki.

Þegar Austurfrétt bar að garði rétt fyrir kvöldmat sögðust félagarnir aðeins hafa séð einn ökumann tala í símann. Sá hefði reyndar farið tvisvar framhjá og verið í símanum í bæði skiptin.

Eftir kvöldmat héldu síðan félagar úr Ísólfi inn að Dreka þar sem þeir standa vaktina í viku. Þetta er í ellefta sinn sem björgunarsveitirnar skipta með sér vöktum á hálendinu þar sem gengið er í ýmsum störf við að liðsinna ferðalöngum.

„Ég byrjaði í sumarfríi í morgun. Hluti þess fer í þetta,“ sagði Seyðfirðingurinn Sveinn Óskarsson úr svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi.

Sumir eru alla vikuna en aðrir skipta með sér dögum. Þá er hver sveit að meðaltali í viku og nokkrar sveitir af Norður- og Austurlandi skipta með sér vaktinni í Dreka. Hálendisvaktin stendur í átta vikur.