Hammondhátíðin er ákveðinn vorboði

Hammondhátíðin á Djúpavogi fer fram helgina 21.-24. apríl, en miðasala á hátíðina er þegar hafin.



Sem fyrr er tónlistardagskrá alla helgina. Hljómsveitin Agent Fresco spilar á Hótel Framtíð á fimmtudagskvöldið, Valdimar á föstudagskvöldið og Stuðmenn á laugardagskvöldið. Sigríður Thorlacius verður svo í Djúpavogskirkju á sunnudaginn ásamt Guðmundi Óskarssyni og Tómasi Jónssyni.

Hammondhátíðin hefst alltaf á sumardaginn fyrsta og segir Ólafur Björnsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, að hún sé orðin fastur liður og ákveðinn vorboði hjá stórum hópi fólks sem mætir ár eftir ár.

„Það má segja að þetta sé orðinn upphafspunktur á sumrinu, eða í það minnsta staðfesting að sumarið sé handan við hornið – hvort sem við fögnum í stuttbuxum eða kraftgallanum, en það er auðvitað allra veðra von á þessum árstíma,“ segir Ólafur.


Bærinn lifnar við

Ólafur segir bæjarbúa sjálfa alltaf hlakka mikið til helgarinnar. „Bæjarbúar hugsa alltaf til Hammondhátíðarinnar með mikilli hlýju, þetta er okkar hátíð, okkar stóri viðburður eins og Bræðslan er á Borgarfirði og Franskir dagar á Fáskrúðsfirði.

Algengt er að brottfluttir komi heim í langa helgi og bærinn lifnar allur við þar sem handverksmarkaðir og allskonar viðburðir eru alla helgina.“


Það taka allir vel í að koma til okkar

Ólafur segir sama til hvaða listamanna sé leitað til þess að koma fram á Hammondhátíðinni, allir taki vel í það þó svo að auðvitað gangi tímasetningar ekki alltaf upp.

„Við erum alltaf með ákveðinn kjarna af böndum sem við viljum fá til okkar, það er allt í boði á Hammond, svo lengi sem hægt er að munstra Hammondorgelið inn í tónlistina.

Við reynum að stíla inn á að hafa eitthvað nýtt og ferskt á fimmtudagskvöldinu og erum mjög ánægð að fá Agent Fresco sem er að verða risaband ef af líkum lætur. Við erum svolítið forvitin að sjá hvaða hóp Stuðmenn draga að sér á laugardaginn.

Fyrir marga eru sunnudagstónleikarnir hápunktur helgarinnar, en þar höfum við stílað inn á að vera með góða söngvara og vandaða tónlist.

Þetta er alltaf ótrúlega falleg og skemmtileg stund í Djúpavogskirkju, þar er góður hljómburður og gaman að sjá fólk „strippa“ löngin sín ef svo má að orði komast, en þau eru yfirleitt aðeins flutt með Hammondorgeli og kannski einu hljóðfæri í viðbót.“


Heildarpassar að verða uppseldir

Ólafur segir vert að taka fram breytt snið á miðasölu ár. „Öll miðasala fer fram á midi.is, en í ár er sá hátturinn hafður á að fyrst um sinn bjóðum við aðeins upp á heildarpassa sem eru að verða uppseldir, það eru aðeins örfáir slíkir eftir. Eftir það fara miðar af stökum miðum í sölu og þá borgar sig að vera í startholunum því að þeir fara líklega hratt. Mér finnst trúlegt að þau skipti verði í byrjun næstu viku, en við látum vita með fyrirvara á Facebooksíðu hátíðarinnar.“

Nánar má lesa um dagskrána og miðasöluna hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.