Hanna vörur með eskfirskum ljósmyndum

Fyrirtækið Pighill á Eskifirði framleiðir vörur með ljósmyndum af staðnum sem slegið hafa í gegn.



Það eru þeir Atli Börkur Egilsson og Hlynur Ársælsson sem standa á bak við fyrirtækið. Austurglugginn náði tali af Hlyni.

„Við félagarnir höfum í gegnum tíðina tekið töluvert af myndum á Eskifirði, Atli Börkur þó meira en ég. Fyrir um tveimur árum fórum við svo að velta því fyrir okkur hvort ekki væri sniðugt að gera eitthvað meira með myndirnar og þar sem skemmtiferðaskipin voru farin að koma í höfn á staðnum langaði okkur að bjóða upp á minjagripi fyrir ferðamenn,“ segir Hlynur, en þeir létu orðin svo sannarlega tala.

„Það fyrsta sem okkur datt í hug var að bjóða upp á myndir á seglum sem hægt væri að hafa til dæmis á ísskápum. Við létum prenta fyrir okkur myndirnar á segul en sáum sjálfir um að skera þær út. Næst gerðum við glasamottur með myndum frá staðnum en við létum prenta fyrir okkur myndir sem við límdum svo á hertan pappír og klipptum til. Einnig höfum við verið með upptakara með myndum og póstkort en ekki voru til mörg slík frá Eskifirði og hafa ferðamennirnir keypt töluvert af hvoru tveggja.“


Hvergi nærri hættir

Hlynur segir hugmyndirnar og framleiðsluna hafa undið töluvert upp á sig í vetur.

„Ýmsar hugmyndir hafa fæðst, eins og jólakort fyrir síðustu jól, en heimamenn tóku þeim vel. Eftir áramót ákváðum við svo að láta framleiða púða með myndum frá Eskifirði sem komu betur út en við þorðum að vona og hafa þeir fengið góðar undirtektir, einnig ákváðum við að prufa að láta framleiða nokkur handklæði með myndum af staðnum sem einnig hafa vakið athygli.“

Hlynur segir þá félaga hvergi nærri hætta í vöruþróun og framleiðslu en nafnið á fyrirtækinu er skemmtilegt og á sína sögu.

„Hingað til höfum við aðeins einblínt á heimabyggðina en það eru í raun endalausir möguleikar til að koma myndunum á framfæri og vöruúrvalið á eftir að aukast hjá okkur. Nafnið Pighill datt öðrum okkur í hug þar sem gatan sem við búum báðir í heitir einfaldlega Svínaskálahlíð,“ segir Hlynur.

Hægt er að nálgast upplýsingar um vörurnar á Facebooksíðu fyrirtækisins.

pighill2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.