![](/images/stories/news/2014/haskoladagurinn_2014_kynning.jpg)
Háskóladagurinn á Egilstöðum í dag
Háskóladagurinn verður í Menntaskólanum á Egilsstöðum þann 16. mars frá kl. 10 til 11:30. Allir háskólar landsins kynna námsleiðir sínar, sem eru yfir 500 talsins, og námsráðgjafar verða á staðnum
„Það er ekki á hverjum degi sem allir háskólar á Íslandi fara hringinn í kringum landið til að kynna háskólanám," segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins um kynninguna í ME.
Allir háskólar á Íslandi standa í sameiningu fyrir Háskóladeginum sem fór fram í Reykjavík laugardaginn 5. mars. Eftir þann dag héldu háskólarnir í ferð um landið til að kynna þær námsleiðir sem eru í boði og var lestin á Höfn í gær.
„Háskólarnir koma til Egilsstaða, og ferðast um landið, til að sem flestir hafi aðgang að góðum námskynningum. Það getur nefnilega verið hægara sagt en gert að velja framtíðarnám og starfsvettvang. Kynningin í ME er einstakt tækifæri fyrir þá sem ætla að hefja háskólanám næsta haust eða vilja skoða hvaða möguleikar eru í boði," segir Hallfríður og bætir við að allir séu velkomnir.
Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands kynna námsframboð sitt, á grunn- og framhaldsstigi.
Háskóladagurinn veitir framtíðarnemendum tækifæri til þess að hitta námsráðgjafa, kennara, starfsmenn og nemendur háskólanna svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um námsval. „Við hvetjum fólk á öllum aldri til þess að mæta hvort sem þeir eru framhaldsskólanemar, nýstúdentar eða fólk úr atvinnulífinu. Það er margt í boði í þessum sjö háskólum landsins og vert að kynna sér fjölbreytileikann sem ríkir innan veggja háskólanna," segir Hallfríður.