„Hef aldrei komið að tómum kofanum hjá heimamönnum“

Guðjón Sigmundsson, innkaupastjóri Pegasus, sagði frá upplifun sinni af verunni á Reyðarfirði í tengslum við tökur á sjónvarpsþáttaseríunni Fortitude á fundi Íbúasamtanna á Reyðarfirði fyrr í vikunni.



„Ég hef verið í þessum bransa af og til í 22 ár og þetta er eina samfélagið sem ég hef komið í þar sem allir íbúar eru yfirhöfuð rosalega jákvæðir og ofboðslega hjálpsamir,“ segir Guðjón Sigmarsson, eða Gaui litli, sem starfar sem innkaupastjóri hjá Pegasus.

„Við erum í skýjunum með móttökurnar og þær skipta okkur öllu máli, því vissulega væri allt miklu þyngra í vöfum ef svo væri ekki. Ég hef aldrei komið að tómum kofanum hjá heimamönnum, alveg sama hvað ég fer fram á eða leita að, það er aldrei vandamál neinsstaðar, heldur líta heimamenn á þetta sem hluti til að leysa,“ segir Gaui, sem sér um að útvega alla hluti sem nota þarf í tökur.

„Það er alveg sama hversu fáránlegt það er, ég þarf að redda því, allt frá þremur kílóum af gulrótum upp í að leigja fimm skip.

Útlendingarnir eru rosa kátir með hvað ég er fljótur að finna réttu hlutina, en átta sig kannski ekki á því að ég er með tíu manna kontaktlista af heimafólki sem ég hringi í ef mig vantar eitthvað sem ég finn ekki.

Þetta er algerlega ótrúlegt. Það er langt frá því að vera sjálfgefið að fólk opni geymslurnar sínar og lánið sitt umsvifalaust. Það er ekki hægt að lýsa því hve starf mitt verður ánægjulegra og auðveldara fyrir vikið.“


Vilja ekki brenna brýr að baki sér

Guðjón segir hópinn sem að verkefninu komi vera þéttan og samheldinn.

„Við erum ca 140 manna hópur, svolítið eins og skátarnir, þjóðdansafélagið eða Hjálpræðisherinn, pínu skrítið lið sem klæðist allt eins og það sé statt norðurpólnum.

Fólk virðist ekki finna mikið fyrir okkur, þó svo við vinnum undir rosalegu álagi og stressi virðist það ekki skila sér út í samfélagið.

Það kom einmitt fram á íbúafundinum í gær að fólki þætti við kurteist, værum ekki með yfirgang og sýndum mikinn skilning.

Það var gaman og mikilvægt fyrir okkur að heyra því þetta er það sem við leggjum ríka áherslu á, en svo getur farið að við komum aftur og aftur og þá þýðir ekki að brenna neinar brýr að baki sér, heldur halda samskiptum við heimafólk eins góðum og unnt er.

Auðvitað erum við fyrirferðamikil með okkar bílaflota og svo vorum við stærstu kaupendur kartöflumjöls í Evrópu í fyrstu seríunni af því við vorum að búa til gervisnjó sem við spreyjuðum út um allar trissur og það var líklega pirrandi fyrir fólk. Þrátt fyrir það heyrðum við aldrei neitt slæmt og allir voru elskulegir.“


Eins og að koma heim

Guðjón segist hafa verið örlítið hræddur við að koma í annað skiptið þar sem hann óttaðist að heimamönnum hefði verið ofgert í fyrstu seríunni.

„Ég áttaði mig engan veginn á því hvort ég fengi sömu góðu viðtökurnar og síðast. Það hefur ekkert breyst þannig að mér fannst eins og ég væri kominn heim.

Nú er ég að fara í þriggja vikna frí sem er auðvitað kærkomið en ég er strax farinn að hlakka til að koma aftur og það segir alla söguna.

Ég held fyrst og fremst að við höfum verið mjög heppin að lenda hér, en það er ekki eins og við höfum sest niður og sagt; „Hei, förum á Reyðarfjörð, þar eru allir svo vingjarnlegir og hjálplegir.“ Staðsetningin var ekki valin þannig, heldur var verið að leita að ákveðnu umhverfi og hitt er bara stór bónus.

Ásdís í áfengisversluninni sagði frá því á íbúafundinum að erlendur maður úr hópnum hefði komið í búðina á dögunum og sagt; „Ég er búinn að hitta fullt af fólki í dag og það er hver einasti maður brosandi. Af hverju er það?“ Þetta kemur útlendingunum á óvart og þeir taka sérstaklega eftir þessu og tala mikið um það.

Kannski eru Reyðfirðingar bara svona ánægðir með að verkefnið sé hér, en kannski er þetta bara hreinlega geðslagið.

Það er ekki bara hér á Reyðarfirði sem allir eru boðnir og búnir, heldur er fólkið á stöðunum í kring meðvitað um að þetta sé í gangi og tilbúið að leggja sitt að mörkum til að allt gangi sem best.“


Möguleikarnir í framhaldinu eru endalausir

Guðjón segir Fjarðabyggð auðveldlega geta skapað sér sérstöðu sem ferðamannabær í tengslum við verkefnið.

„Verkefni sem þetta er alltaf mikil innspýting inn í samfélagið en auk þess skilum við haug af ferðafólki sem kemur hingað gagngert til þess að heimsækja tökustaðinn á þessari frægu og fallegu þáttaröð.

Samfélagið getur auðveldlega gert sér mat úr þessu með því að byggja upp ferðaþjónustu tengda þáttunum, ég sé til dæmis fyrir mér kaffihús með munum og myndum tengdum þáttunum.“

Guðjón rekur Hernámssetur í Hvalfirði þar sem hann er búsettur.

„Það myndi enginn heimsækja tómt félagsheimili þó svo þar væri málverkasýning á þriggja mánaða fresti. Fólk kemur á safnið til mín af því það er statt á sögusvæði og vill kynna sér þá sögu gegnum safnið.

Það er alveg það sama hér – sagan og umgjörðin sem hér er verið að skapa er aðdráttaraflið. Ef hinsvegar enginn nýtir sér þetta verður ekki neitt úr neinu.

Flest settin eru rifin niður eftir að búið er að mynda, það eina sem stendur alltaf eftir er Tærgesen. Öll þau hús eru til inni í stúdíói í Bretlandi og þegar útlendingarnir sem hafa verið í vinna í settinu þar koma hingað í fyrsta skipti, finnst þeim alveg fríkuð upplifun að standa í miðju setti en vera samt úti.

Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hve mikið sóknarfæri þetta er. Bæði væri hægt að gera eitthvað með Tærgesensvæðið, nýta Félagslund sem lista- og menningamiðstöð með þessu ívafi og bara hvað sem er, möguleikarnir eru endalausir, það þarf bara einhver að framkvæma þá.“


Mikil sóknarfæri ef rétt er haldið á spilunum

Guðjón segir tökur á Fortitude geta skapað svæðinu mikil sóknarfæri ef rétt er haldið á spilunum í framhaldinu.

„Það er alltaf verið að mynda það sama í þessum stærri erlendu verkefnum – Gullfoss, Geysi, Þingvallasvæðið, Reykjavík, Snæfellsnes, Mývatnssvæðið, Svartasand og Jölulsárlón.

Það er sjaldan farið austar en að Höfn, þrátt fyrir að hér séu brjálæðislega falleg svæði sem vel er hægt að selja í stað þess að vera alltaf að mynda sömu staðina sem fara líklega að vera svolítið þreyttir. Í ljósi þess að Fjarðabyggð stendur á milli tveggja stórra vel markaðsettra póla í kvikmyndatöku, þ.e. Mývatn og Jökulsárlón má vel hugsa sér að tækifæri felist í því að markaðsetja Fjarðabyggð sem miðstöð, miðsvæðis í flóru áhugaveðra tökustaða framtíðarinnar.

Þetta býður upp á mikla möguleika en það er sveitarfélagsins að markaðssetja sig hérlendis og erlendis sem fýsilegan tökustað.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.