![](/images/stories/news/folk/Ásgeir_Metúsalemsson.jpg)
Hefur myndað kirkjur landsins undanfarin ár
Reyðfirðingurinn Ásgeir Metúsalemsson hefur haft áhuga á ljósmyndun frá því hann var strákur og á stórt safn mynda. Ásgeir sagði frá myndaáhuga sínum í þættinum Að austan á N4.
Ásgeir fékk sína fyrstu myndavél í fermingargjöf sem hann á ennþá, sem og allar þær vélar sem hann hefur eignast síðan. Hann segir það hafa verið klæðskerann Kristján Ólason sem kveikti áhuga hans á ljósmyndun rétt eftir fermingu, en það var þó ekki fyrr en að börnin voru komin á legg sem hann fór að sinna áhugamálinu fyrir alvöru.
Ásgeir segist hafa verið íhaldssamur á filmuvélarnar og ekki haft sig í að taka skrefið inn í stafrænu öldina fyrr en árið 2003. Hann á stórt myndasafn, mest hefur hann tekið sjálfur en einnig safnar hann saman gömlum myndum frá öðrum. Síðustu ár hefur hann myndað kirkjur landsins og á aðeins eftir að fanga þrjár þeirra.
Hér má horfa á innslagið „Minningar í myndum“.