Heiður Ósk og Ómar sameinast á ný

Héraðsbúinn Heiður Ósk Helgadóttir er ein þeirra sem tekur þátt í sérstökum þætti Útsvars annað kvöld í tilefni 50 ára afmælis Sjónvarpsins.



Afmælisþátturinn verður með öðru sniði en venjulega, þar sem umsjónarmenn spurningaþáttanna Popppunkts, Gettu betur og Hvað heldurðu? keppa á móti fyrrverandi keppendum sömu þátta, en Heiður Ósk var stigavörður þáttanna Hvað heldurðu?


Lærdómsríkur sjónvarpsferill

Heiður Ósk á langan og lærdómsríkan feril að baki, en hún var starfsmaður Sjónvarpsins frá 1985-2010, eða í 25 ár. Hún byrjaði sem ritari framkvæmdastjóra, lærði svo og starfaði sem sminka og var auk þess í ýmsum störfum eins og ritun og lestri smáauglýsinga. Þegar henni var hrósað fyrir góðar ljósmyndir ákvað hún að taka málin í sínar hendur;

„Ég ákvað að líma mig við einn besta fréttatökumanninn og fylgdi honum alltaf í tökum eftir mína vinnu á daginn. Ég fékk mjög góða leiðsögn og lærði mikið, en eftir þrjá mánuði nennti hann þessu ekki lengur og sagði mér að fara að sækja um vinnu, sem og ég gerði og fékk myndatökustarf í afleysingum.

Í einni af mínum fyrstu tökuferðum náði ég einstökum myndum af flóði í Kreppu og því þegar brúin yfir Sandá losnaði og flaut út á sjó. Það var eiginlega alveg óvart en eins og það hefði verið æft tíu sinnum og þetta vakti athygli á mér. Eftir það vann ég í stúdíóinu við myndatökur en langaði alltaf í fréttirnar og fór þangað 2001. Þá kynntist ég Hjalta og ákvað að segja upp og prófa að fara með honum austur og varð hljóðmaður á svæðisútvarpinu sem var og hét,“ segir Heiður Ósk sem nú vinnur við þáttinn Að austan á N4 sem hljóð- og tæknimaður ásamt manni sínum Hjalta Stefánssyni gegnum fyrirtæki þeirra HS Tókatækni.


„Það fylltust öll samkomuhúsin“

Það var veturinn 1987-1988 sem þátturinn Hvað heldurðu? var á dagskrá Sjónvarpsins, en Ómar Ragnarsson var umsjónarmaður hans og Heiður Ósk stigavörður og sminka. Um spurningakeppni milli bæjarfélaga er að ræða, en ólíkt Útsvari þar sem keppendur mæta í sjónvarpssal, voru þættirnir sendir út frá landsbyggðinni.

„Við fórum vikulega með leikmyndina og upptökubílinn út á land og tókum upp einn þátt í einu, eins og við værum í beinni útsendingu. Þrír voru í hverju liði, alltaf tveir hagyrðingar og skemmtiatriði frá hvoru bæjarfélagi, dásamlega íslenskt og skemmtilegt.

Í fyrsta þættinum var hagyrðingur að nafni Guðmundur Ingi Kristjánsson, en honum þótti svo magnað að þessi unga kona væri að strjúka honum – ég var að farða hann – að hann setti saman vísu um mig. Með því lagði hann línurnar og voru samdar vísur um mig í 21 þætti af 23. Þær snérust flestur um að fara upp á eða undir Heiði en ég tók það ekkert nærri mér, þetta var bara andrúmsloftið í þættinum.“


Hárgreiðslan umræðuefni í Þjóðarsálinni

Heiður Ósk segir þáttinn hafa verið geysivinsælan. „Það fylltust öll samkomuhúsin þar sem við komum og tókum upp, en spurningakeppni og hagyrðingar eru blanda sem getur ekki klikkað. Auk þess voru skemmtiatriðin yfirleitt mjög skemmtileg.

Dæmi um vinsældir þáttarins er að hárgreiðslan mín varð umræðuefni í Þjóðarsálinni á Rás 2! Eitthvern þáttinn prófaði ég að setja „vöfflur“ í hárið á mér og það bara loguðu allar línur. Svona ætti ég sko ekki að gera, þetta væri alveg hörmulegt og svo framvegis. Það sem mér fannst verst var að þegar þetta var í Þjóðarsálinni vorum við á leið í tökur á næsta þætti og vöfflujárnið ekki með, Annars hefði ég sko sett þær aftur í mig!“

Heiður Ósk er spennt fyrir morgundeginum. „Mér skilst að við Ómar verðum bara tvö í liði og keppum á móti einhverjum fyrrverandi keppendum. Ómar er engum líkur og gull af manni. og var alveg frábært að vinna með honum.“

Þátturinn hefst klukkan 20:20 annað kvöld.

Heiður Ósk Helgadóttir

 Heiður Ósk Helgadóttir gömul

Hárgreiðslan góða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.