„Held að fólk kunni að meta vonina sem skín í gegn“ - Myndband

Norðfirðingurinn Guðmundur R. Gíslason sendi í byrjun mánaðarins frá sér nýtt lag og myndband við það sem talar inn í takmarkanir Covid-faraldursins. Hvoru tveggja hafa fengið ljómandi fínar móttökur. Guðmundur telur að boðskapur lagsins um að bráðum taki við betri tíð tali til fólks.

„Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð. Grunnskólakennarar hafa til dæmis beðið um að fá sendan textann til að nota í kennslu.

Það hafa líka margir skrifað þakkarorð við myndbandið. Ætli það sé ekki vonin sem skín í gegn um að þetta verði brátt að baki sem fólk kann að meta,“ segir Guðmundur.

Fjarvinna ekki ný í tónlistinni

Lagið „Svona er lífið“ kom út í byrjun nóvember og situr sem stendur í öðru sæti vinsældalista Rásar 2. Þá hefur myndbandið fengið yfir 60 þúsund spilanir á Facebook. Það er nokkuð sérstakt en Guðmundur og hans undirleikarar tóku það upp hver í sínu lagi, eins og tíðkast á tímum fjarfunda.

„Það er ekkert nýtt að vinna svona í tónlist að taka upp og senda annað. Þetta er hins vegar nýrra í myndbandagerðinni. Við Guðjón Birgir (Jóhannsson) sendum strákunum leiðbeiningar um hvernig þeir ættu að snúa símanum við upptökurnar og svo gekk þetta stórvel.“

Listafólk túlkar sögulega tíma

Guðmundur gaf út breiðskífuna „Sameinaðar sálir“ í byrjun febrúar og kveðst ekki verið með fleiri útgáfur áformaðar á árinu. Það breyttist hins vegar þegar nýja lagið kom upp á yfirborðið. Hann flutti það fyrir Jón Ólafsson, píanóleikara og upptökustjóra og þar með fóru hlutirnir á fullt.

„Við lifum á sögulegum tímum og flestir tónlistarmenn finna hjá sér þörf til að túlka ástandið með einhverjum hætti. Þetta lag fjallar um faðmlög, hvað við söknum þeirra og auðvitað vonum við að allt verði eins og það var. Ég leyfði Jóni að heyra lagið og hann sagði að það væri svo viðeigandi að það yrði að koma út núna,“ segir Guðmundur.

Fermingarbræður vinna loks saman

Aðrir undirleikarar eru trommuleikarinn Magnús Örn Magnússon, gítarleikarinn Bjarni Halldór Kristjánsson og bassaleikarinn Guðni Finnsson, jafnaldri og bekkjarbróðir Guðmundar úr Neskaupstað. Þeir hafa hins vegar aldrei gefið saman út lag áður. „Hann spilaði einu sinni í útvarpsupptöku með SúEllen auk þess sem við höfum sungið saman á sviði, en við höfum aldrei gert neitt frumsamið saman. Það var kominn tími á það.“

Eins og aðrir landsmenn óskar Guðmundur þess að ástandið fari að lagast, sem er einmitt boðskapur lagsins. „Það á eftir að koma í ljós hvort ég reynist sannspár. Ég syng um að það þurfi að telja upp að tíu, þreyja Þorra og sjálfsagt Góu líka. Það er spurning hvort þá verði búið að bólusetja landsmenn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.