Helgin: 50 ungmenni og biskupinn á æskulýðsmóti kirkjunnar

Biskup Íslands vísiterar Egilsstaðaprestakall um helgina og þjónar meðal annars í messu við lok æskulýðsmóts á Seyðisfirði. Karlalið Þróttar tekur á móti toppliði HK í Mizuno-deild karla í blaki og fríir flaututónleikar eru í Kirkju- og menningarmiðstöð Austurlands í kvöld.


Æskulýðssamband kirkjunnar á Austurlandi stendur fyrir árlegu móti sínu á Seyðisfirði um helgina og þangað er búist við um 50 austfirskum ungmennum. Mótinu lýkur með messu kl. 11 á sunnudag í Seyðisfjarðarkirkju þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir þjónar ásamt sr. Erlu Björk Jónsdóttur og Sigríði Rún Tryggvadóttur. Ungmenni verða áberandi í þjónustunni.

Opinn fyrirlestur um flóttamenn

Mótið er sambland af fræðslu, leik og skemmtun. Ýmsar smiðjur verða í boði, meðal annars prjónagraffítí, ball og hæfileikakeppni. Bæjarbúum býðst að líta við í bíósal Herðubreiðar klukkan 10 á laugardagsmorgun en þar verður Þórunn Ólafsdóttur, Austfirðingur ársins 2016, með fyrirlestur um reynslu sína af starfi með flóttamönnum. Með henni í för er unnusti hennar, Kinan, sem segir frá því hvernig sé að vera ungur flóttamaður.

Konudagsmessa

Biskupinn predikar einnig í konudagsmessu í Egilsstaðakirkju kl. 18: 00 á sunnudag. Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir þjónar fyrir altari og konur úr sóknarnefnd og messuþjónahóp aðstoða. Kvennakórinn Héraðsdætur verða sérstakir gestir og syngja nokkur lög.

Flautur

Í Tónlistarmiðstöð Austurlands, Eskifirði, verða í dag ókeypis tónleikar með Berglindi Maríu Tómasdóttur, flautuleikara. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Berglind María hefur nýtt austurferð sína til að hitta nemendur LungA-skólans á Seyðisfirði og fræða þá í tali og tónum.

Karlakór og rapp

Annað kvöld klukkan 20:00 verða miklir tónleikar í Egilsbúð með norðfirskum tónlistarmönnum. Á tónleikunum heyrast allt frá gömulum sjóaraslögurum, gamalla blús-standara til nýmóðins rapplaga auk karlakórs og lúðrahljóms. Meðal þeirra sem fram koma eru DDT – Skordýraeitur, Karlakórinn Ármenn, Bassablúsband Friðriks Vilhjálmssonar og hugsanlega Súellen.

Heimaleikir í blakinu

Karlalið Þróttar leikur tvo heimaleiki við topplið HK í blaki. Fyrri leikurinn verður á laugardag klukkan 16:00 en sá seinni á hádegi á sunnudag. Strax að þeim loknum tekur B-lið Þróttar á móti Fylki í þriðju umferð bikarkeppni kvenna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.