Helgin: Afmæli Sleðbrjótskirkju og jólablót á Borgarfirði

Níutíu ára vígsluafmæli Sleðbrjótskirkju verður fagnað á sunnudag. Á Borgarfirði verður haldin stórhátíð á sérstökum tíma, að þessu sinni er um jólablót að ræða.


Vígsluafmælisins verður verður minnst með hátíðarmessu í kirkjunni klukkan tvö á sunnudag.

Hlíðarmenn áttu lengst af kirkjusókn yfir Jökulsána að Kirkjubæ. Áratugum eftir að ósk um sérstaka kirkju í Jökulsárhlíð kom fyrst fram var sóknunum skipt árið 1920 og nokkru síðar tóku fimm bændur í sveitinni að sér að reisa steinkirkju fyrir lágt verð.

Kirkjan að Sleðbrjót var loks vígð þann 10. júlí árið 1927. Núverandi kirkja þar er því sú eina sem staðið hefur a.m.k. í lútherskum sið í Jökulsárhlíð (þó er vitað um nokkur bænhús í sveitinni fyrr á öldum) og má það teljast óvenjulegt fyrir kirkjustaði í sveit á Íslandi.

Sleðbrjótskirkja er nú í Egilsstaðaprestakalli og sóknarnefnd skipa þær Ragnheiður Haraldsdóttir, Stefanía Malen Stefánsdóttir og Svandís Sigurjónsdóttir.

Við hátíðarmessuna á sunnudaginn mun frú Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, predika. Sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir og sr. Þorgeir Arason, fyrrverandi og núverandi sóknarprestar kirkjunnar, þjóna fyrir altari. Kór Kirkjubæjar- og Sleðbrjótssókna syngur. Organisti og kórstjóri er Jón Ólafur Sigurðsson. Meðhjálpari er Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar.

Að messu lokinni verður athyglisverð byggingarsaga kirkjunnar rifjuð upp og sóknarnefnd býður viðstöddum í vöfflukaffi í safnaðarheimilinu.

Jólablót á Borgarfirði

Vertarnir í Fjarðaborg á Borgarfirði bjóða í þjóðleg matarveislu með skemmdu og óskemmdu lambakjöti og viðeigandi meðlæti þegar þeir halda jólablót að heiðnum sið í kvöld.

Skemmtiatriði, tónlist, deilur lagðar niður og almenn fíflalæti. Sérstakur gestur kvöldsins verður Baldur Pálsson Austfjarðagoði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.