Helgin: Einar Mikael ætlar að galdra fyrir Austfirðinga

Töframaðurinn Einar Mikael verður á ferð um Austurland næstu vikuna með nýja sýningu sem hann kallar Töfraheim. Gettu betur lið ME mætir Flensborg á sama tíma og Höttur getur tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni í körfubolta að ári.


„Ég er búinn að setja saman öll mín bestu atriði 8 ár af töfrum í eina stórkostlega fjölskylduupplifun. Sýning saman stendur af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Ég leyfi líka áhorfendum að taka virkan þátt í öllu sem ég geri og það er alltaf einhvern sem fær að koma uppá svið og aðstoða mig,“ segir Einar Mikael í tilkynningu.

Hann hefur undanfarin ár verið að hasla sér völl erlendis, bæði í Kína og Las Vegas, en segist helst vilja vera hér á landi og skemmta. Hann hefur rúntinn í Herðubreið á Seyðisfirði í kvöld og lýkur honum á Fáskrúðsfirði á miðvikudag.

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum í Gettu betur mætir Flensborgarskólanum í Hafnarfirði í fjórðungsúrslitum keppninnar klukkan níu í kvöld í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Þetta er í áttunda skiptið sem ME kemst í sjónvarpið og þrisvar sinnum hefur liðinu tekist að komast í undanúrslitin.

Þá gæti körfuknattleikslið Hattar verið búið að tryggja sér sæti í úrvalsdeild að ári. Til þess þarf liðið að vinna Ármann í íþróttahúsi Kennaraháskólans. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

Kvennalið Þróttar í blaki tekur á móti HK, sem er í efsta sæti Mizuno-deildarinnar klukkan 14:00 á sunnudag. Fjarðabyggð og Höttur mætast í B-deild Lengjubikars karla í Fjarðabyggðarhöllinni á sama tíma á morgun.

Þá stendur frjálsíþróttadeild Hattar fyrir opnu móti sem hefst klukkan 10:00 í fyrramálið í Íþróttamiðstöðinni Egilsstöðum.

Dagskrá Einars Mikaels:

Seyðisfjörður föstudaginn 3 mars Herðubreið kl 19:30
Neskaupstaður laugardagurinn 4 mars Nesskóli kl 14:30
Eskifjörður laugardagurinn 4 mars Eskifjarðarskóli kl 19:30
Breiðdalsvík sunnudagurinn 5 mars Breiðdalsvík kl. 14:30
Reyðarfjörður sunnudagurinn 5 mars Reyðarfjörður kl. 19:30
Vopnafjörður mánudagur 6 mars Mikligarður kl.19:30
Egilsstaðir þriðjudagur 7 mars Egilsstaðaskóli kl: 19:30
Fáskrúðsfjörður miðvikudagurinn 8 mars Félagsheimilið kl: 19:30

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.