Helgin: Málar mest í Álfaborginni
Listakonan Elín Elísabet Einarsdóttir opnar í dag málverkasýningu á Borgarfirði eystra með verkum sem hún hefur málað þar undanfarnar þrjár vikur. Bæjarhátíð Vopnfirðinga, fyrsta klifurhátíðin á Seyðisfirði og fjöldi tónleika er meðal þess sem er í boði á Austurlandi um helgina.„Ég hef verið úti í móa á Borgarfirði að mála fyrir sýninguna. Ég mála mikið á plötur sem hafa fundist hér, svo sem hurð af skáp sem ég fann í fjárhúsi vina minna úti í Höfn og hillu úr eldhúsinnréttingunni í félagsheimilinu Fjarðarborg. Ég vinn með ljóð saman við málninguna, og hægt er að koma auga á prentaðar ljóðlínur innan um pensilförin. Í þetta skiptið vinn ég með ljóð sem ég hef skrifað á Borgarfirði og um Borgarfjörð.
Ég mála mest í Álfaborginni sem er óþreytandi uppspretta innblásturs og býður upp á ljúft samlífi við náttúruna. Ég er til dæmis búin að kynnast rjúpufjölskyldu vel sem býr í vesturhlið Borgarinnar, og skordýr hafa verið að kjamsa á fótunum á mér þegar svo viðrar að ég er berfætt við að mála.
Ég varð líka fyrir því mikla láni við eitt málverkið að fugl átti leið hjá og dritaði á það. Dritið er að sjálfsögðu varanlegur partur af verkinu, enda er ég myndlistarmaður af því tagi sem tekur hinu óvænta fagnandi,“ segir Elín Elísabet.
Sýningin ber heitið „Taktu þig með þér“ og opnar í Glettu, sýningarrými Hafnarhússins við Hafnarhólma, klukkan 17:00 á morgun og stendur út júlí.
Þrátt fyrir að vera uppalin í Borgarfirði fyrir vestan hefur Elín Elísabet tekið miklu ástfóstri við Borgarfjörð eystra sem hún heimsótti fyrst árið 2011. Útskriftarverkefni hennar árið 2016 var bókin Onyfir með myndum af Borgarfirði og Borgfirðingum. Þá stóð hún sumarið 2020-21 fyrir Nýlundabúðinni við Hafnarhólma ásamt Rán Flygenring.
Vopnaskak
Viðar eru sýningaropnanir um helgina. Á Vopnafirði opnar Dagný Steindórsdóttir ljósmyndasýninguna „Ókunnugir“ í Kaupvangi klukkan 15:00 í dag. Á sýningunni skoðar Dagný daglegt líf ókunnugs fólks sem á vegi hennar hefur orðið.
Á Vopnafirði stendur yfir bæjarhátíðin Vopnaskak sem nær hápunkti um helgina. Í kvöld eru tónleikar með vopnfirsku tónlistarfólki í Miklagarði, á morgun fjör í miðbænum og stórtónleikar annað kvöld áður en dagskránni líkur með Bustarfellsdeginum á sunnudag. Þá er vegurinn yfir Hellisheiði eystri, milli Héraðs og Vopnafjarðar, í sínu besta ástandi um þessar mundir en hún þykir frábær útsýnisleið.
Birnir er meðal þeirra sem kom fram á tónleikunum á Vopnafirði. Hann hefur samt fyrst viðkomu á Egilsstöðum og kemur fram á Aski klukkan 22:30 í kvöld.
Tónleikar um alla firði
Sýning Elínar Elísabetar er ekki það eina á Borgarfirði um helgina. Þar verður á morgun samtímalistahátíð í Fjarðarborg. Í kvöld heldur tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon þar tónleika. Þeir hefjast klukkan níu en eftir þá heldur hann uppi stuðinu sem plötusnúður. Teitur spilar líka á Tehúsinu á Egilsstöðum klukkan 20:30 á morgun.
Nóg verður af tónleikum á Austurlandi um helgina. Í Neskaupstað kemur Dundur, sólóverkefni Guðmundar Höskuldssonar, fram í Tónspili, nýrri félagsaðstöðu BRJÁN, klukkan 21:00 í kvöld. Dundur sendi frá sér plötuna „Tilvera“ um síðustu jól. Í Beituskúrnum halda síðan Tristan og Stefanía uppi kántrístemmingu annað kvöld.
Í félagsheimilinu Skrúð á Fáskrúðsfirði verður austfirska hljómsveitin Chögma með tónleika. Sveitin vakti athygli í vetur þegar hún náði þriðja sæti Músíktilrauna. Þar kemur einnig fram Social Suicide, pönksveit sem komst einnig í úrslit Músíktilrauna.
Tónleikarnir eru hluti af listahátíðinni Innsævi í Fjarðabyggð. Af öðrum viðburðum hennar á morgun má nefna jóga og íhugun með lifandi tónlist undir berum himni við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði klukkan 15:00 á morgun. Í Bragganum við safnið opnaði Fáskrúðsfirðingurinn Marc Alexander myndlistarsýninguna Hernám í vikunni. Þá verður Esther Ösp Gunnarsdóttir með opið hús í keramiksmiðju sinni í bílskúrnum við heimili hennar að Sunnugerði 21 á Reyðarfirði.
Klifurhátíð á Seyðisfirði
Í dag hefst fyrsta klifurhátíðin á Seyðisfirði. Þar hefur framtakssamt fólk komið upp tugum klifurleiða. Byrjað verður í dag með kvöldvöku við Sjóbaðsstofuna SAMAN en síðan klifrað alla helgina.
Á Seyðisfirði er einnig boðið upp á leiðsögn um fornleifauppgröftinn í Firði á föstudögum klukkan 14:00. Þar hefur verið grafinn upp skáli frá landsnámi en búsetuminjar þar spanna nær alla Íslandssöguna.
Á milli alls þessa má njóta sólarinnar, en spáð er 20 stiga hita á Austurlandi fram á þriðjudag. Fyrir fólk sem vill hreyfa sig létt í sólinni þá má benda á fræðslugöngur upp með Hengifossi alla virka daga klukkan tíu að morgni.