![](/images/stories/news/2017/breki.jpg)
Helgin: „Mér finnst geggjað að fá að vera með námskeið núna
„Ég spilaði á BLIND tónleikum síðasta sumar í tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði og þá byrjuðum við Davíð að velta fyrir okkur hugmyndinni að vera með námskeið í raftónlistargerð“, segir Breki Steinn Mánason, sem mun leiðbeina námskeiði í raftónlist helgina 2. – 3. September á Eskifirði.
Breki Steinn hefur verið að gera raftónlist síðan árið 2013, en er þó búinn að fikta við tónlistarupptökur frá því í grunnskóla. „Ég er gítarleikari og hef verið í fullt af hljómsveitum, en svo hef ég alltaf verið að brasa í einhverju sólóstöffi líka. Ég er með eitt verkefni í gangi núna sem heitir Laser Life. Ég var að gefa út nýja plötu með því verkefni sem heitir Swim.“
Stuttu eftir pælingar Breka og Davíðs síðastliðið sumar kom í ljós að Breki hafði komist inn í dBs Music skólann í Berlín í tónlistarframleiðslu og upptökustjórn og hefur því búið í Berlín síðastliðið ár.
„Ég flutti heim nú nýlega eftir að ég lauk náminu og er þetta námskeið því að verða að veruleika. Mér finnst geggjað að fá að vera með námskeið núna á meðan ég er með allt ferskt í hausnum sem ég var að læra þarna“, segir Breki Steinn.
Það verður hægt að læra ýmislegt hjá Breka Stein, en auk þess að hafa lokið þessu námi er hann gítarleikari og hefur verið í þónokkrum hljómsveitum. „Á námskeiðinu ætla ég að kenna á forritið Ableton Live. Ég ætla að kenna hljóðgervla og trommuheila, og aðferðir hvernig er hægt að átta sig á tónlistarhugmyndum með þessum tækjum. Svo ætla ég líka að fara yfir lagastrúktur og hljóðblöndun. Einnig munu þátttakendur búa til eigin tónlistarhugmynd frá grunni“, segir Breki Steinn.
Námskeið Breka Steins í raftónlist verður helgina 2. – 3. September í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Aðgangseyrir er ókeypis og er aldurstakmarkið 16 ára og eldri. Kennt verður laugardag og sunnudag kl. 13:00 – 17:00.
Leiksýning í sláturhúsinu
Leikverkið Í samhengi við stjörnurnar hefur fengið frábæra dóma frá þeim sem það hafa séð. Laugardaginn 2. September gefst íbúum Austurlands færi á að sjá verkið í Sláturhúsinu á Egilsstöðu,. Sýningin hefst kl. 20:30.
Síðustu tónleikar Havarí í sumar
Moses Hightower munu loka sumrinu í Havarí með tónleikum laugardaginn 2. September. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00.
Eldhúsið lokar 21:00 og eru hausttilboð á barnum.
Menningardagur á Stöðvarfirði – langur laugardagur
Laugardaginn 2. September mun vera langur laugardagur á Stöðvarfirði með menningarviðburðum út um allann bæ. Salthúsmarkaðurinn verður í samkomuhúsinu frá kl. 11:00 – 21:00, þar sem handverksfólk selur afurði sínar. Fyrir utan samkomuhúsið verður síðan „skottsala“, þar sem fólk selur eigur sínar úr skottinu á bílnum sínunm. Minjasafn Tona og Gallerí Snærós verða opin frá kl. 14:00 – 19:00. Svartholið hjá Önnu verður opið frá kl. 12:00 – 16:00.
Steinasafn Petru verður opið frá kl. 09:00 – 21:00 og verður hægt að fá kaffi og kökur um kvöldið.
Á milli viðburða verður hægt að setjast inn víðsvegar um bæinn og fá sér kaffi og veitingar. Saxa gilstiheimili og kaffihús verður með súpu og brauð á tilboði frá hádegi og Brekkan býður upp á pizzahlaðborð frá kl 18:00.
Geirmundur á Skjöldólfsstöðum
Laugardaginn 2. September mun vera haldið hið árlega Geirmundarball á Skjöldólfsstöðum. Síðastliðin 20 ár hefur hljómsveit Geirmundar verið í syngjandi sveiflu á Skjöldólfsstöðum og verður engin breyting nú í ár. Miðaverð er 3.000kr