Helgin: Norsk hljómsveit á ferð um Austurland og lokatónleikar hljómsveitanámskeiðs

Norska hljómsveitin Digvalley heldur þrenna tónleika á Austurlandi um helgina. Lokatónleikar Hljómsveitanámskeiðs Austurlands verða á Eskifirði í kvöld.


Tónlist Digvalley er bæði angurvær og rokkuð en sveipuð dulúð. Þeir sækja innblástur sinn í smiðju söngvaskála og ambient-rokks. Fyrsta breiðskífa bandsins kom út 19. apríl síðastliðinn.

Sveitin kemur fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 21:00 í kvöld, spilar í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði í morgun ásamt sveitinni Pálmu og loks á Djúpavogi á sunnudag.

Lokatónleikar Hljómsveitanámskeiðs Austurlands verða í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði og hefjast klukkan 20:00 í kvöld.

Námskeiðið byrjaði 1. mars og síðan hafa verið reglulegar æfingar á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Norðfirði auk sérstakra smiðja þar sem farið var í lagasmíðar, upptökur auk þess sem Salka Sól fór með þátttakendum í framkomu og söng.

Námskeiðið var fyrir unga tónlistarmenn af öllu Austurlandi. Þeir leika í kvöld bæði nýja austfirska tónlist sem þeir hafa samið auk uppáhalds laganna sinna.

Í kvöld verður tónlistarmaðurinn Axel Flóvent sérstakur gestur.

Austfjarðaslagur verður í fyrstu deild karla klukkan tvö á laugardag þegar Leiknir tekur á móti Fjarðabyggð í Fjarðabyggðarhöllinni. Á sama tíma heimsækir Höttur Vestra á Ísafirði í annarri deild og Einherji KFR á Hvolsvelli. Huginn tekur síðan á móti Grindavík í fyrstu deildinni á mánudag klukkan tvö á Fellavelli.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.