![](/images/stories/news/2016/digvalley.jpg)
Helgin: Norsk hljómsveit á ferð um Austurland og lokatónleikar hljómsveitanámskeiðs
Norska hljómsveitin Digvalley heldur þrenna tónleika á Austurlandi um helgina. Lokatónleikar Hljómsveitanámskeiðs Austurlands verða á Eskifirði í kvöld.
Tónlist Digvalley er bæði angurvær og rokkuð en sveipuð dulúð. Þeir sækja innblástur sinn í smiðju söngvaskála og ambient-rokks. Fyrsta breiðskífa bandsins kom út 19. apríl síðastliðinn.
Sveitin kemur fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 21:00 í kvöld, spilar í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði í morgun ásamt sveitinni Pálmu og loks á Djúpavogi á sunnudag.
Lokatónleikar Hljómsveitanámskeiðs Austurlands verða í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði og hefjast klukkan 20:00 í kvöld.
Námskeiðið byrjaði 1. mars og síðan hafa verið reglulegar æfingar á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Norðfirði auk sérstakra smiðja þar sem farið var í lagasmíðar, upptökur auk þess sem Salka Sól fór með þátttakendum í framkomu og söng.
Námskeiðið var fyrir unga tónlistarmenn af öllu Austurlandi. Þeir leika í kvöld bæði nýja austfirska tónlist sem þeir hafa samið auk uppáhalds laganna sinna.
Í kvöld verður tónlistarmaðurinn Axel Flóvent sérstakur gestur.
Austfjarðaslagur verður í fyrstu deild karla klukkan tvö á laugardag þegar Leiknir tekur á móti Fjarðabyggð í Fjarðabyggðarhöllinni. Á sama tíma heimsækir Höttur Vestra á Ísafirði í annarri deild og Einherji KFR á Hvolsvelli. Huginn tekur síðan á móti Grindavík í fyrstu deildinni á mánudag klukkan tvö á Fellavelli.