Helgin: Pönk, gospel, ungbarnaleikhús og gönguferð í haustinu

Haustið skartar ekki bara fjölbreyttum litum í náttúrunni heldur líka austfirsku tónlistarlífi þar sem um helgina verður gospelnámskeið á Eskifirði og pönktónleikar í Neskaupstað. Fjöldi annarra fjölbreyttra viðburða er í boði og komið er að ögurstundu fyrir liðin í fyrstu deildinni í fótbolta.


Sumarsýningu lýkur

Á Seyðisfirði lýkur sumarsýningu Skaftfells, Samkomu handan Norðanvindsins, á sunnudag með tveimur viðburðum í Herðubreið og hefjast þeir klukkan 20:00.

Norska listakonan Nora Joung endursegir sögur sem styðjast við sögulegar staðreyndir, heimspekilegar vangaveltur og ljóðræna frásögn. Í gjörningum segir hún frá mismunandi virkni munnsins, menningarsögu hans, stúlku sem drukknaði og gúmmíbragði.

Stuttmynd skoska listamannsins Luke Fowler, Depositions, er hugleiðing um hvað getur orðið, hvað hefði getað orðið, hvað gæti enn orðið ef heimurinn myndi snúast í aðra átt.

Gospelnámskeið

Í kvöld hefst þriggja daga námskeið í gospeltónlist í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Námskeiðið leiðir Óskar Einarsson en með honum í för eru raddþjálfarnir Fanný Tryggvadóttir og Hrönn Svansdóttir auk stórsöngvarans Páls Rósinkrans. Hljómsveit Jóns Hilmars Kárasonar spilar undir á uppskerutónleikum á sunnudag.

Pönk að hausti

Á laugardagskvöld klukkan níu verður Pönk að hausi haldið í Egilsbúð. Fram koma sveitirnar DDT, Austurvígstöðvarnar, Vinnie Vamos og Tuð.

Leiðsögn á Teigarhorni

Í tilefni alþjóðlegs menningarminjadags verður boðið upp á leiðsögn um Teigarhorn klukkan tíu á laugardagsmorgun. Skoðaðir verða nokkrir fornleifastaðir og endað við Weywadtshús þar sem sagt verður frá gömlum ábúendum. Gangan tekur um tvo tíma og verður geislasteinasafnið opið að henni lokinni.

Leikskólinn opnaður

Á sama tíma verður nýr leikskóli, Eyrarvellir, opnaður í Neskaustað. Dagskrá er frá 10-11 en opið hús til klukkan 13.

Ungbarnaleiksýning

Ungbarnaleiksýningin „Ég hlusta á vindinn“ verður sýnd í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag klukkan 14:00. Um er að ræða finnsk/íslenska sýningu sem sérsniðin er að ungabörnum.

Í verkinu er heimurinn skoðaður með öllum skynfærunum, verkið virkar bæði róandi og örvandi fyrir þau litlu. Það sækir innblástur sinn í móðureðlið og móðurarfinn, textinn byggir á Eddukvæðum, finnskum þjóðvísum og gömlum íslenskum þulum. Sérstaklega er unnið tón og hryn kvæðanna.

Æfingabúðir í blaki

Haustíþróttirnar eru að hefjast og frá klukkan 9-17 munu spænsku þjálfararnir Borja Gonzalex og Ana Vidal stýra æfingabúðum í blaki í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Þær eru ætlaðar blökurum sem ekki spila í úrvalsdeild.

Mikilvæg helgi fyrir austfirsku liðin

Huginn getur tryggt sér áframhaldandi sæti í fyrstu deild karla í knattspyrnu með sigri á HK en liðin mætast á morgun. Leikurinn átti að vera á Seyðisfirði en hefur verið færður yfir á Fellavöll vegna vallaraðstæðna og hefst klukkan 14:00.

Sigur Hugins gæti gert Fjarðabyggð og Leikni Fáskrúðsfirði, sem eru í fallsætunum, greiða. Leiknir er í verstri stöðu, þarf að vinna báða leikina sem eftir eru til að eiga möguleika. Liðið tekur á móti nafna sínum úr Reykjavík klukkan 14:00 á laugardag. Fjarðabyggð gæti komist upp fyrir HK með sigri á Fram í Reykjavík á sama tíma.

Höttur er nokkuð öruggur með áframhaldandi veru í annarri deild og heimsækir Aftureldingu í Mosfellsbæ á morgun. Tímabili Einherja í þriðju deildinni lýkur með útileik gegn Dalvík/Reyni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.