Helgin: Stórtónleikar, málþing um geðheilbrigði og íþróttir
Töltmót, kórtónleikar, málþing um geðheilbrigði, hlaupanámskeið, blakleikir og fimleikasýning eru meðal þess sem Austfirðingar geta fundið sér til skemmtunar um helgina.
„Hvað segirðu gott?“ málþing um Geðheilbrigði verður haldið í Verkmenntaskóla Austurlands klukkan 11-14. Aðalfrummælandi er Logi Geirsson, einkaþjálfari og fyrrum landsliðsmaður í handknattleik. Í öðrum erindum verður meðal annars fjallað um lífsánægju og starfsumhverfi sjómanna, lífsímynd og átraskanir, nemandi segir frá reynslu sinni af baráttu við þunglyndi og aðstandandi deilir reynslu sinni í kjölfar sjálfsvígs.
Fríða Rún Þórðardóttir, afrekshlaupari og næringar- og íþróttafræðingur verður með hlaupaæfingu og fyrirlestur í fyrirlestrarsal Grunnskólans á Egilsstöðum í dag klukkan 17:30 á vegum Hlaupahéranna og UÍA. Eins er hlaupaæfing frá 9:00-10:00 í fyrramálið þar sem safnast verður saman við íþróttahúsið. Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Tvennir tónleikar eru á dagskrá helgarinnar. Haldið verður upp á 100 ára afmæli ASÍ í Egilsbúð á laugardagskvöld þar sem fram koma Lay Low, Úlfur Úlfur og Bjartmar. Uppselt er á tónleikana.
Króatíski kórinn syngur klukkan 20:00 á sunnudagskvöld í Egilsstaðakirkju. Kórinn skipa tólf konur af Austurlandi sem syngja króatísk og georgísk lög.
Opið hús verður í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað á laugardag milli klukkan 13 og 15. Nemendur og starfsfólk skólans taka á móti gestum og kynna starfsemi hans.
Fimleikadeild Hattar stendur fyrir uppákomu í íþróttahúsinu á Egilsstöðum klukkan 17:30 í dag til heiðurs keppendum deildarinnar sem safnað hafa að sér verðlaunum á bikarmótum síðustu tvær vikur. Í lokin verða fimleikaáhöldin uppi og gestum gefst færi til að prófa þau.
Karlalið Þróttar í blaki tekur á móti Þrótti R./Fylki um helgina. Liðin spila tvo leiki og verður sá fyrri klukkan 20:00 í kvöld en sá seinni 13:30 á morgun.
Þá stendur hestamannafélagið Freyfaxi fyrir töltmóti í samstarfi við Fellabakarí í reiðhöllinni á Iðavöllum klukkan 14:00 á morgun.