Skip to main content

Helgin: Stórtónleikar, málþing um geðheilbrigði og íþróttir

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. mar 2016 10:30Uppfært 11. mar 2016 10:32

Töltmót, kórtónleikar, málþing um geðheilbrigði, hlaupanámskeið, blakleikir og fimleikasýning eru meðal þess sem Austfirðingar geta fundið sér til skemmtunar um helgina.


„Hvað segirðu gott?“ málþing um Geðheilbrigði verður haldið í Verkmenntaskóla Austurlands klukkan 11-14. Aðalfrummælandi er Logi Geirsson, einkaþjálfari og fyrrum landsliðsmaður í handknattleik. Í öðrum erindum verður meðal annars fjallað um lífsánægju og starfsumhverfi sjómanna, lífsímynd og átraskanir, nemandi segir frá reynslu sinni af baráttu við þunglyndi og aðstandandi deilir reynslu sinni í kjölfar sjálfsvígs.

Fríða Rún Þórðardóttir, afrekshlaupari og næringar- og íþróttafræðingur verður með hlaupaæfingu og fyrirlestur í fyrirlestrarsal Grunnskólans á Egilsstöðum í dag klukkan 17:30 á vegum Hlaupahéranna og UÍA. Eins er hlaupaæfing frá 9:00-10:00 í fyrramálið þar sem safnast verður saman við íþróttahúsið. Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir.

Tvennir tónleikar eru á dagskrá helgarinnar. Haldið verður upp á 100 ára afmæli ASÍ í Egilsbúð á laugardagskvöld þar sem fram koma Lay Low, Úlfur Úlfur og Bjartmar. Uppselt er á tónleikana.

Króatíski kórinn syngur klukkan 20:00 á sunnudagskvöld í Egilsstaðakirkju. Kórinn skipa tólf konur af Austurlandi sem syngja króatísk og georgísk lög.

Opið hús verður í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað á laugardag milli klukkan 13 og 15. Nemendur og starfsfólk skólans taka á móti gestum og kynna starfsemi hans.

Fimleikadeild Hattar stendur fyrir uppákomu í íþróttahúsinu á Egilsstöðum klukkan 17:30 í dag til heiðurs keppendum deildarinnar sem safnað hafa að sér verðlaunum á bikarmótum síðustu tvær vikur. Í lokin verða fimleikaáhöldin uppi og gestum gefst færi til að prófa þau.

Karlalið Þróttar í blaki tekur á móti Þrótti R./Fylki um helgina. Liðin spila tvo leiki og verður sá fyrri klukkan 20:00 í kvöld en sá seinni 13:30 á morgun.

Þá stendur hestamannafélagið Freyfaxi fyrir töltmóti í samstarfi við Fellabakarí í reiðhöllinni á Iðavöllum klukkan 14:00 á morgun.