Skip to main content

Helgin: Sýning listnema opnar í Skaftfelli

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jan 2017 13:38Uppfært 27. jan 2017 14:24

Árleg sýning myndlistarnema við Listaháskóla Íslands opnar í Skaftfelli á Seyðisfirði á morgun. Í Sláturhúsinu verður ljósmyndasýning í tilefni afmælis Barnaheilla og toppslagur verður í fyrstu deild karla í körfuknattleik.


Undanfarnar tvær vikur hafa fimmtán nemar úr myndlistardeildinni, tvö börn og hundur dvalist á Seyðisfirði. Útskriftarnemarnir hafa verið fastagestir í Skaftfelli frá árinu 2001.

Þeir kynnast lífinu í bænum og nýta sér þekkingu og hráefni þar við listsköpun. Afraksturinn er sýndur á sýningunni sem stendur til 2. apríl.

Klukkan fjögur á morgun opnar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum ljósmyndasýningin „Óskir íslenskra barna“ sem er gjöf Barnaheilla - Save the Children og Ástu Kristjánsdóttur ljósmyndara í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna og barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Sýningin stendur yfir til 11. febrúar 2017.

Þá mætast í kvöld Fjölnir og Höttur í Grafarvogi í toppslag fyrstu deildar karla í körfuknattleik. Höttur hefur tveggja stiga forskot og leik til góða þegar flautað verður til leiks klukkan 19:30.