Helgin: „Þetta verður nokkurskonar óvissuferð“

Þetta verður ótrúlega fjölbreytt og flott dagskrá, en hjá okkur eru listamenn víðsvegar að úr heiminum og munu vinna saman og sitt í hvoru lagi,“ segir Una Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði, en boðið verður upp á Fjöllistakvöld þar annað kvöld.



Gestalistamenn Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði bjóða til fjöllistakvöldsins MADE HERE á laugardagskvöldið þar sem þeir sýna afrakstur vinnu sinnar undanfarinn mánuð. Hópinn skipa dansari, ljósmyndari, myndlistar- og tónlistarfólk, auk þess sem tónelskt starfsfólk miðstöðvarinnar mun stíga á stokk.

„Dagskráin verður óvanaleg, gestir verða jafnvel leiddir um allt húsið þannig að þetta er nokkurskonar óvissuferð,“ segir Una.

Sjö listamenn hafa dvalið á Stöðvarfirði að undanförun og er uppbókað í listamannadvöl Sköpunarmiðstöðvarinnar út maí á næsta ári.

„Við vorum að taka í notkun nýtt gæsilegt sameiginlegt vinnurými fyrir listamennina okkar sem við erum afar stolt af og viljum sýna gestum á morgun. Einnig er að koma vinnustofa fyrir keramik, þannig að það er alltaf eitthvað að gerast og kjörið fyrir fólk að kíkja við og sjá þetta allt saman.“

Að vanda er aðgangur ókeypis og boðið verður uppá kaffi og með því. Nánar má lesa um viðburðinn hér.


Menningarverðlaun Evrópu á Fáskrúðsfirði

Í dag klukkan 17:00 verður athöfn í Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði í tilefni þess að endurbygging þeirra húsa sem Frakkar reistu á staðnum á árabilinu frá 1897 til 1907 fékk Evrópsku menningarverðlaunin á sviði menningararfleifðar í Madrid, en það eru stærstu verðlaun á þessu sviði sem veitt eru í Evrópu. Allir eru vellkomnir.


Feðginatónleikar í Egilsbúð

Feðginin Geir Sigurpáll Hlöðversson og Rannveig Júlía Sigurpálsdóttir verða með huggulega tónleika í Egilsbúð í Neskaupstað í kvöld þar sem þau syngja og leika ljúf uppáhalds lög ásamt góðum gestum. Sjá nánar hér.


Geðsjúk myndataka á Egilsstöðum

Ljósmyndaverkefnið „Faces Of Depression“ verður með myndatöku í boði Aloca Fjarðaráls, í sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardaginn, en þar mun Tara Ösp Tjörvadóttir, taka myndir af þeim sem einhverntíman hafa glímt við andlega sjúkdóma af einhverju tagi. Frétt um viðburðinn má lesa hér.


Bubbi og Dimma í Valaskjálf

Bubbi og Dimma eru á tónleikaferð um landið og verða í Valaskjálf á Egilsstöðum á laugardaginn. Tónleikaplatan Minnismerki með Bubba Morthens og Dimmu mun koma út nú í október, en tónleikarnir verða þannig uppbyggðir að Dimma mun hefja og flytja sín helstu lög áður en Bubbi kemur á sviðið og rennt verður í prógram sem mun innihalda helstu lög Utangarðsmanna, Das Kapital og Egó. Sjá nánar hér.


Danskynning í Sláturhúsinu

Í dag klukkan 17:00 mun Alyona Perepelytsia danskennari mun kynna verk sín og þau námskeið sem hún mun kenna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í vetur. Í lokin verður stiginn dans undir handleiðslu hennar þannig að gestir fá að kynnast því sem koma skal. Sjá nánar hér.


Pólska bíóárið í Sláturhúsinu

Pólska Bíóárið 2016 verður í Frystiklefa Sláturhússins á Egilsstöðum um helgina. Allar myndirnar eru sýndar með enskum texta. Sjá nánar hér.


Hausthjólaferð í húminu

Hjólakraftur UMF Þristar ætlar að taka forskot á Daga myrkurs og bjóða alla velkomna með í stuttan og þægilegan hjóltúr í húminu á laugardaginn.

Markmiðið er að hreyfa sig saman og lýsa upp myrkrið með allskyns ljósum, endurskinsmerkjum og brosum. Þátttakendur eru því beðnir að taka sem mest af öllu þessu með sér. Túrinn endar í Selskógi við varðeld, kakó og kósýheit.

Farið frá Sundlauginn á Egilsstöðum klukkan 17:30. Sjá nánar hér.


Ljóðasamkoma í Seldal

Ljóðasamkoma verður í Seldal í Norðfirði á sunnudaginn klukkan 15:00 í tilefni tuttugu ára afmælis Félags ljóðaunnanda á Austurlandi. Fjölbreytt dagskrá, gaman og alvara, tónlist og talað mál.


Fyrirlestri aflýst

Af óviðráðanlegum orsökum verðum við að aflýsa áður auglýstum fyrirlestri Michéle Hayeur Smith sem vera átti í Minjasafni Austurlands á laugardaginn. Vonir standa til að Michéle geti heimsótt okkur á nýju ári í staðinn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.