Helgin: Þjóðleikhússtjóri afhendir verðlaun, síðasta sýningarhelgi og fyrsta umferð í fótboltanum

Keppni í fyrstu og annarri deild karla í knattspyrnu hefst með nágrannaslag Fjarðabyggðar og Hugins á morgun. Á Seyðisfirði afhendir þjóðleikhússtjóri verðlaun á þingi Bandalags íslenskra leikfélaga og síðasta sýningarhelgi á sýningu listnema í Skaftfelli.


Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga verður haldinn á Seyðisfirði helgina 6.-8. maí. Í tengslum við fundinn verður haldin einþáttungahátíð í Herðubreið í kvöld sem er öllum opin og hefst hún klukkan 20. Þar gefst aðildarfélögum Bandalagsins kostur á að sýna styttri verk, en þau eru alls um 60 talsins.

Á hverju ári velur Þjóðleikhúsið eina sýningu frá áhugaleikfélagi og býður sýningardag á stóra sviði Þjóðleikhússins í maí eða júní. Á hátíðarkvöldverði á laugardagskvöldið mætir Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri og greinir frá niðurstöðu valnefndar um Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins, þetta árið.

Þingið á Seyðisfirði er haldi í boði Leikfélags Seyðisfjarðar sem hefur haft veg og vanda að undirbúningi.

Í Skaftfelli lýkur sýningunni No Solo. Á henni sýna tólf nemendur úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands afrakstur námskeiðs sem fram fór á Seyðisfirði í mars. Leiðbeinendur voru Björn Roth og Kristján Steingrímur.

Austfirsku liðin tilbúin að afsanna spárnar

Í fyrsta sinn í sögunni eru þrjú lið í fyrstu deild karla í knattspyrnu af Austurlandi. Huginn og Fjarðabyggð mætast í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 14:00 á morgun. Liðunum að austan er almennt spáð erfiðu sumri. Leiknir og Huginn eru ný í deildinni en Fjarðabyggð mætir með mikið breytt lið síðan í fyrra.

„Við erum vanir þessu. Það er gott að fá þetta til að hafa eitthvað að afsanna. Svo tökum við bara Leiceister á þetta, er það ekki?“ segir Birkir Pálsson, fyrirliði Hugins.

„Sumarið leggst ágætlega í okkur. Við höfum ekki náð að æfa mikið saman í vetur en erum þokkalega spenntir fyrir að takast á við þetta sumar. Stefnan er að festa okkur í sessi sem fyrstu deildar lið,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, fyrirliði Fjarðabyggðar.

Leikni á leik á sama tíma gegn Selfossi á útivelli. „Þetta er nýtt verkefni að vera í fyrstu deild, að spila við mörg af stærstu liðum landsins. Við höfum ekki enn sest niður sem lið og sett okkur markmið en það óttast enginn að segja að við ætlum að halda okkur í þessari deild. Við erum ekki að tjalda til einnar nætur,“ segir Björgvin Stefán Pétursson sem leiðir Leiknisliðið.

Höttur hefur leik í annarri deildinni gegn Njarðvík klukkan 14:00 á morgun á Fellavelli. „Okkur finnst sumarið mjög spennandi. Við höfum fengið nokkra nýja leikmenn sem koma allir vel út,“ segir fyrirliðinn Brynjar Árnason.

Nánar er fjallað um liðin og rætt við fyrirliðana í Austurglugganum sem kom út í dag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.