![](/images/stories/news/2017/Maður_í_mislitum_sokkum.jpg)
Helgin: „Við erum öll með gæsahúð af spenningi“
„Undirbúningur hefur gengið vel og allt gekk eins vel og það á að ganga á generalprufunni í gær,“ segir Freyja Kristjánsdóttir, leikari í verkinum Maður í mislitum sokkum sem Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir á Iðavöllum í kvöld.Maður í mislitum sokkum er eftir Arnmund Backman og nú í leikstjórn Almars Blæs Sigurjónssonar og Sigurbjargar Lovísu Árnadóttur aðstoðarleikstjóra. Verkið er frá árinu 1998 og var fyrst sett upp af Snúði og Snældu, þá í Þjóðleikhúsinu og svo hefur það verið sýnt af áhugaleikhópum víða um land. Verkið segir frá kostulegri atburðarás þegar öldruð ekkja finnur ókunnugan mann á sínum aldri í bíl sínum og tekur hann með sér heim þar sem hann virðist minnislaus. Í söguna blandast vinir ekkjunnar og nágrannar úr eldriborgarablokkinni og sitt sýnist hverjum um þennan ókunna aðkomumann.
„Verkið er létt, fjörugt og skemmtilegt og hæfir öllum, í það minnsta ætla ég að bjóða sex ára barnabarni mínu í kvöld. Það hefur verið dásamlegt að vera inn á Iðavöllum, í þessu hlýlega félagsheimili þar sem ríkir einstaklega góður andi, eins og í hópnum okkar,“ segir Freyja.
Sýningin hefst klukkan 20:00 en nánari upplýsingar um hana er að finna hér.
Héraðsdætur syngja á Seyðisfirði
Kvennakórinn Héraðsdætur verður með vortónleika Ó blessuð vertu sumarsól í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði á morgun laugardag, klukkan 16:00. Nánar má lesa um tónleikana hér.
Göngum saman á sunnudaginn
Styrktarganga Göngum saman 2017 fer fram á sunnudaginn, mæðradaginn. Gengið verður á fjórtán stöðum á landinu þar á meðal á Vopnafirði, Neskaupsstað og Reyðarfirði.
Á Vopnafirði verður gengið frá Kaupvangskaffi, frá íþróttahúsinu á Norfirði og Stríðsárasafninu á Reyðarfirði. Á öllum stöðum hefst gangan klukkan 11:00. Nánar má lesa um viðburðinn hér.
Nýtt gallerý
Fyrsta sýningin í Stúdíó Ströndinni opnar klukkan fimm í dag. Þar er um að ræða sýningu á verkum Gísla Sigurðarsonar sem myndaði hversdagslíf á Seyðisfirði árin 1957-1991 og lagði í ríkan sjóð bæjarins af sögulegu myndmáli. Líkt og margir Seyðfirðingar, starfaði Gísli við fiskverkun hjá Ströndin. Ströndin Studio er staðsett í fyrrum verbúð síldarsöltunnarstöðvarinnar við Strandarveg. Undir áhrifum af sögu Seyðisfjarðar er það markmið Strandarinnar að miðla og þróa “analog” ljósmyndun og prent á Austurlandi. Sýningin er unninn í samvinnu við Tækniminjasafn Austurlands. Kærar þakkir til fjölskyldu Gísla Sigurðssonar.