„Hérna viljum við vera“

Sauðburður er langt kominn á Skjöldólfsstöðum í Breiðdal, þar sem ungbændurnir Arna Silja Jóhannsdóttir og Sigurður Max Jónsson tóku við búskap síðastliðið haust.



Arna Silja og Sigurður kynntust í Menntaskólanum á Egilsstöðum, hún er frá Breiðdalsvík en hann frá Glúmstöðum í Fljótsdal.

Að stúdentsprófi loknu fluttu þau til Reykjavíkur þar sem þau kláruðu bæði nám frá Hákskóla Íslands, Sigurður jarðfræði og Arna Silja þjóðfræði. Bæði langaði þau að halda áfram námi og segja þau valið hafa staðið á milli þess að vera áfram í Reykjavík eða þá að fara í búfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

„Þrátt fyrir að hafa kynnst góðu fólki í Reykjavík fundum við okkur ekki þar, það er einhvernvegin ekki okkar lífsstíll. Við fórum því í búfræðina og sjáum ekki eftir því. Meðan við vorum í náminu höfðum við augun opin fyrir tækifærum til þess að komast í búskap, en það var okkar draumur.

Ég er uppalinn á sauðfjárbúi og hef því alltaf verið í kringum kindur. Ég var þó ekkert sérlega heillaður af þessu þegar ég var yngri, en þegar ég fór að heiman og sérstaklega til Reykjavíkur þá áttaði ég mig á því að ég vildi vera í sveit, í það minnsta á landsbyggðinni,“ segir Sigurður.

Sigurður segir þau Vilborg Hjartardóttir og Gestur Reimarsson á Skjöldólfsstöðum hafi ætlað sér að hætta búskap. „Við prófuðum að heyra í þeim og athuga hvort við gætum komið inn í þetta og þá afstýrt fyrirhuguðum búskaparlokum, eitt leiddi af öðru og hingað erum við komin,“ segir Sigurður.

Arna Silja segir þau mjög þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til þess að komast inn í búskap. „Traustið sem þau hafa sýnt okkur er alveg ómetanlegt og hafa þau alltaf verið boðin og búin að hjálpa okkur og leiðbeina ef eitthvað er. Sveitarómansinn heillar, það er svo gott að geta verið sinn eigin herra, segir Arna Silja.


Meiri vinna og minni svefn

Um 330 kindur eru á bænum og sauðburður langt kominn, aðeins eiga 20 eftir að bera.

„Þetta fer langt í vikunni. Sauðburðurinn hefur gengið mjög vel en er auðvitað annasamur tími, en sem betur fer fengum við góða hjálp frá fjölskyldunni minni. Þetta er ennþá erfiðara tímabil en ég bjóst við, meiri vinna og minni svefn,“ segir Arna Silja.

Aðspurð um framhaldið segir Sigurður; Við gerðum samning til tveggja ára, eða þar til nýr búvörusamningur yrði samþykktur, það er því nokkuð óvíst um framhaldið, ætlum að byrja á því að klára þetta ár fyrst og sjá svo til. Vonandi fáum við að vera hérna sem lengst, hérna viljum við vera.“

Arna Silja markar 1200

Sigurður gefur pela 1200

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.