Heybaggar munu skilja hverfin að
Mikil verður um dýrðir á 230 ára kaupstaðarafmæli Eskifjarðar um helgina sem hefst formlega á fimmtudaginn næsta, þann 18. ágúst.
„Það virðist mikil stemmning fyrir þessu og mér sýnist veðurspáin ætla að vera okkur hliðholl,“ segir Kristinn Þór Jónasson, formaður Íbúasamtakanna á Eskifirði og skipuleggjandi afmælisins.
„Það sem verður opið almenningi, þá meina ég fólki fyrir utan Eskifjörð, er unglingadansleikurinn, almenni dansleikurinn með gömlum eskfirskum hljómsveitum að ógleymdum hópaö og fyrirtækjakeppni í hlussubolta, en allir þessir viðburðir verða á laugardaginn.
Það er ekki oft sem eitthvað er um að vera fyrir unglinga á svæðinu, en þetta verður alvöru diskó með þremur plötusnúðum, góðu hljóðkerfi, ljósum og reyk – en aldurinn sem má koma eru árgangar 1999-2003. Ég vona að það verði vel mætt því þetta verður mjög flott diskótek.“
Kristinn segir að undirbúningur gangi vel. „Ég er að fara að ná í heybagga sem eiga að skilja hverfin að í hverfagrillinu sem verður haldið á Eskjutúninu á föstudagskvöldið. Menn virðast spenntir fyrir ballinu með gömlu hljómsveitunum á föstudagskvöldið þar sem aðal númerin verða Köngulóarbandið og Summary of Sound, ásamt fjölmörgum öðrum góðum,“ segir Kristinn Þór.
Nánar má kynna sér dagskrána og skrá sig til leiks í hlussuboltann hér, en einnig verður tekið við skráningum á staðnum.
Ljósmynd: Atli Börkur