Hitinn myndi bræða piparkökuskrautið í Mexíkó

Hin mexíkóska Nandllely Aguilar Peña átti von á meiri snjó þegar hún kom til Austfjarða í vikunni til að eyða jólunum með vinkonu sinni á Fáskrúðfirði. Í heimalandi hennar snúast jólahefðirnar líkt og hér mikið um mat.

„Ég í fiðlunámi í Bolzano á Ítalíu og þar var ég svo heppin að eignast tvær virkilega góðar íslenskar vinkonur. Það er mjög dýrt að fljúga til Mexíkó fyrir aðeins þrjár vikur þannig ég valdi að heimsækja þær í jólafríinu,“ segir Nandllely.

Vikunum þremur eyðir hún þess í stað á Íslandi með fyrrnefndum vinkonum sínum en önnur þeirra er Berta Dröfn Ómarsdóttir frá Fáskrúðsfirði og verður Nandllely næstu vikuna.

„Ég á von á afskaplega hefðbundnum íslenskum jólum því ég veit að Berta elskar íslenskar hefðir. Hún borðar til dæmis salta rotna kjötið (hangikjöt) sem allir hata.

Ég er búinn að fá að taka þátt í að búa til piparkökuhús og skreyta það. Það hefði ég aldrei getað í Mexíkó því skrautið bráðnar í hitanum. Ég fékk líka að vera með í að skera út laufabrauð. Ég var skelfileg í því en það var stórkostlega gaman.“

Alltaf vor í Mexíkóborg

Hún hlakkar líka til að upplifa snjóinn en hann hefur verið af skornum skammti eystra það sem af er vetri. „Það snjóar aldrei í Mexíkóborg. Þar er bara alltaf vor, með mismikilli rigningu. Þar fer hitinn aldrei niður fyrri fjórar gráður en heldur aldrei upp fyrir 25 gráður því þótt borgin standi við miðbaug er hún í 2400 metra hæð.

Einu sinni fór hitinn undir fjórar gráður og þá var gefin út viðvörum og skólanum aflýst því það var of kalt.

Það var sérstakt að það var enginn snjór þegar ég kom til landsins en síðan fór ég að Gullfossi og þá var alltof mikill snjór út um allt þannig ég sá ekki nokkurn sakapaðan hlut.“

Jólahefðirnar í Mexíkó eru talsvert frábrugðnar þeim íslensku. „Það snýst mikið um matinn. Amma eldar svo mikinn kalkún, því hún óttast að gera ekki nóg, að við þurfum að borða hann í þrjár vikur. Hún og mamma eru svo öflugar í eldhúsinu að mér er ekki hleypt nærri því.“

Af matarborði Mexíkóa má nefna Romeritos, mole-sósu og Pico de gallo.

Eyða hinu illa

Vikuna fyrir jól kalla Mexíkóar Las Posadas. Þá er slegið upp veislum þar sem fjölskyldur koma saman og leika atburði jólanæturinnar.

„Þetta snýst um það þegar Jósef og María fara á milli húsa til að biðja um gistingu. Við eigum söngva um það. Fjölskyldurnar skipta sér í þá sem eru fyrir innan og utan og syngja þær línur sem tilheyra hvorum flokki. Í lokin syngja svo allir saman.

Við brjótum líka Piñatas. Það er tunna með 5-7 oddum á sem tákna höfuðsyndirnar sjö. Inni í tunnunum er síðan nammi en hefðin snýst um að eyða hinu illa.“

Það sérstæðasta við Íslendinga enn sem komið er að mati Nandllely er að allir virðast þekkja allir. „Annað hvort þekkjast menn eða eiga sameiginlegan vin. Það myndi aldrei gerast í Mexíkóborg. Í flugvélinni til Íslands var vinkona mágkonu vinkonu minnar. Þær þekktust ekkert en vissu af hvor annarri og heilsuðust eins og vinkonur í flugstöðinni. Mér fannst þetta virkilega fyndið og krúttlegt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.