![](/images/stories/news/folk/gudrun_heba_og_bjarney_linda.jpg)
Hlaupársdagur: „Okkur langaði ekki að læra á degi sem á ekki einu sinni að vera til“
Hefðbundið skólastarf víkur í Grunnskóla Reyðarfjarðar í dag fyrir skemmtilegum uppákomum sem skipulagðar eru af nemendaráði skólans.
„Okkur langaði ekki að læra á degi sem á ekki einu sinni að vera til,“ segir Guðrún Heba Larsen Orradóttir, en hún er í nemendaráði skólans sem lagði til við skólastjórnendur að brjóta upp hefðbundið skólastarf á þessum hlaupársdegi.
Nemendaráðið skipulagði daginn og hefur unnið að undirbúningi hans ásamt starfsfólki skólans. Nemendur fara í bingó, leiki, eiga stund með vinabekkjunum sínum og borða köku sem nemendaráð bakaði.
„Við þurftum að funda oft þar sem það var erfitt að skipuleggja heilan dag, en það tókst að lokum,“ segir Bjarney J'orunn Þrastardóttir, sem einnig er í nemendaráði, en báðar eru stelpurnar í 10. bekk.
Stelpurnar segja að skólastjórnendur hafi tekið vel í hugmyndina og nemendur einnig, upp að vissu marki.
„Krakkarnir eru mjög glöð að þurfa ekki að vera í skólanum í dag en einhverjir voru ekki nógu sáttir með að þurfa að skipuleggja eitthvað með vinabekknum sínum, en þar eru eldri bekkirnir að gera eitthvað skemmtilegt með yngri bekkjunum, en það verða örugglega allir kátir í lokinn,“ segir Guðrún Heba.
Þær segja setuna í nemendaráði afar lærdómsríka og skemmtilega. „Það er mjög gaman að vera í nemendaráði. Ég er ekki viss um að við fáum að gera mikið meira, eftir þetta,“ segir Guðrún Heba og hlær.
Hugarfóstur nemendaráðs
Ásta Ásgeirsdóttir segir hefðbundið skólastarf ekki hafa vikið undanfarna hlaupársdaga.
„Nei, það hefur ekki verið svo. Við erum með alveg frábært og mjög öflugt nemendaráð núna og þetta er algerlega þeirra hugarfóstur og við brugðumst bara við.
Þeim þótti algert svindl að þurfa að læra á þessum degi og tóku málin í sínar hendur, tóku meira að segja frídaginn sem myndaðist vegna foreldraviðtala í síðustu viku til þess að baka hlaupárskökuna fyrir samnemendur sína,“ segir Ásta, ánægð með sitt fólk.