„Hljóðfærin eru hönnuð til þess að berja á og slefa“

Í gömlu netagerðinni í Neskaupstað var um helgina opnuð listsýning eftir tónlistarmanninn Curver Thoroddsen. Um er að ræða innsetningu sem kallast „Tónlistarhornið“ en í rýminu úir og grúir af barnahljóðfærum sem gestum sýningarinnar býðst að leika sér með að vild.


Curver á sjálfur það safn barnahljóðfæra sem er á sýningunni en upphaf söfnunar hans má rekja aftur um nokkur ár. „Ég var að kenna tónlistarsköpun á frístundaheimili við Fossvogsskóla. Ég byrjað þá að venja komur mínar í Góða hirðinn og kaupa mér eitt og eitt barnahljóðfæri til að nýta í smiðjuna sem ég var með. Ég hef alltaf haft rosalega mikinn áhuga á hljóðgjöfum og er sjálfur mikill hljóðfærasafnari,“ segir Curver um upphaf söfnunarinnar.

Curver safnaði barnahljóðfærunum hægt og rólega fyrst um sinn en þegar honum bauðst að taka þátt í hljóðlistarsýningunni Hljóðön í Hafnarfirði spýtti hann í lófana og fór að safna barnahljóðfærum af nokkrum krafti og setti svo upp sýninguna „Tónlistarhornið“ á Hljóðön. Sýningin vakti lukku og hefur hann verið beðinn um að setja hana upp eftir það og nú í Neskaupstað. „Þessi hljóðfæri eru svo skemmtileg að það hefur verið erfitt að hætta að safna þeim og því er verkið alltaf að stækka og stækka eftir því sem tímanum líður.“

Furðuleg hljóðfæri
„Það sem er svo skemmtilegt við barnahljóðfæri er að þau eru alveg einstök. Það er í raun ófullkomleikinn sem heillar mig mest. Þau eru mörg með villum og stundum einkennileg. Þegar maður er að eiga við þau, hraða á tempói eða slíkt, þá fer hljóðfærið stundum að verða falskt. Hvert og eitt hljóðfæri lifir í raun sjálfstæðu lífi. Þau fara líka stundum í gang í tíma og ótíma og það kom tvisvar sinnum fyrir á leið minni austur með þessi hljóðfæri að ég þurfti að stöðva bílinn til þess að slökkva á einhverri fiðlu sem hafði farið sjálf í gang og var gjörsamlega að æra mig,“ segir Curver léttur í bragði.

Sýningin er hugsuð fyrir alla fjölskylduna og ekki síður fullorðna en krakka. „Ég hef fundið fyrir því að fullorðna fólkið hefur eiginlega meira gaman að þessu en börnin. Þegar þú ert krakki þá viltu helst ekkert vera leika þér með leikföng sem eiga að vera fyrir yngri börn en fullorðnir geta alveg sleppt fram af sér beislinu og gengið aftur í barndóm. Þetta er alvöru myndlistarverk en ekki leikhorn fyrir krakka. Þetta lætur nefnilega fullorðið fólk gleyma stund og stað og fær þau til að fikta og hafa gaman. Þau áhrif sem barnahljóðfærin geta haft er að þau eru furðuleg og því engin krafa á fólk að spili vel eða kunni nokkuð á hljóðfæri og fólk verður því ekki eins meðvitað um sjálft sig. Ég held að þessi sýning geti alveg kallað fram nostalgíu hjá fólki og jafnvel fengið það til að fara í geymsluna eftir sýningu og taka til þau barnaleikföng sem þau áttu.“

Hljóðfærin á sýningunni eru mörg hver mjög fyndin og skemmtilegt en Curver segir þó erfitt að segja hvað sé vinsælast. „Rafmagnstrommusettið er alltaf spennandi. Svo er eitt ótrúlega skrýtið hljóðfæri sem er kennt við Blue Man Group, en það er hljóðlistarhópur og þekktir fyrir að spila á plaströr. Þetta hljóðfæri lítur einmitt út fyrir að vera gert úr plaströrum og er alveg fáránlega skrýtið. Það eru einhverjir ljósnemar á því sem maður slær á út í loftið og framkallar hljóð. Annars er mismunandi í hvaða hljóðfæri fólk sækist, gítararnir eru oft mjög skemmtilegir,“ segir Curver.

Notaði barnahljóðfærin í listasmiðju
Í síðustu viku kenndi Curver einnig listasmiðju á Norðfirði og Eskifirði ásamt Steinunni Eldflaug Harðardóttur, sem betur er þekkt undir listamannsnafninu dj. flugvél og geimskip. Listasmiðjan bar heitið „Hljóðlist og gjörningar“ og voru þátttakendur flestir á aldrinum níu-tólf ára. Þar nýtti Curver sér barnahljóðfærasafnið til að koma krökkunum af stað. „Smiðjan var á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar og fyrirkomulagið var mjög sniðugt þar sem við vorum fyrstu dagana í Þórsmörk í Neskaupstað en færðum okkur svo í Holuna á Eskifirði en þátttakendur í smiðjunni komu frá báðum stöðum,“ segir Curver.

„Við byrjuðum að kynna fyrir krökkunum hvað hljóð er og hvernig er hægt að vinna með hljóð. Reyndum að koma þeim í skilning um að hægt væri að gera hljóðverk á alls konar óvenjulegan hátt, að hægt væri að hraða og hægja og snúa upp á hljóð og þess háttar. Við notuðum barnahljóðfærin í þessar tilraunir. Þegar þau voru orðin nokkuð örugg þá færðum við okkur á Eskifjörð í stúdíóið og þar komust krakkarnir í alvöru hljóðfæri. Við náðum að gera alls konar með þeim í vikunni: búa til óvenjulegt hljóðverk, semja lög og búa til hljómsveitarmerki svo eitthvað sé nefnt. Við lukum þessu svo á tónleikum á föstudaginn,“ segir Curver sem er mjög sáttur með hvernig til tókst.

„Tónlistarhornið“ verður aftur opið næstu helgi í Neskaupstað bæði laugardag og sunnudag. „Ég hvet alla fjölskylduna til að mæta og skoða sig um og fikta. Hljóðfærin eru hönnuð til þess að berja á og slefa. Þau ættu því ekki að geta skemmst og fólk getur því verið ófeimið,“ segir Curver að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.