![](/images/stories/news/2017/hsss_gjafir_jan17.jpg)
Hollvinir gáfu tæki fyrir þrjár milljónir
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Seyðisfirði (HSSS) afhentu nýverið gjafir að verðmæti ríflega þriggja milljóna króna á sjúkrahúsið. Samtökin hafa stutt dyggilega við bakið á sjúkrahúsinu síðustu ár.
Gefið var sónartæki, rafknúið þríhjól fyrir tvo einstaklinga, rafknúið sjúkrarúm með dýnu og náttborði og flutningshjálpartæki.
Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, tók við gjöfunum og þakkaði stuðning samtakanna sem hann sagði ómetanlegan. Áætlað er að verðmæti gjafa samtakanna til sjúkrahússin sé nú komið yfir 25 milljónir króna.
Í ár eru rúm þrjátíu ár síðan núverandi sjúkrahús á Seyðisfirði tók til starfa en tíu ár tók að koma því upp.
Til samanburðar tók ár að koma upp Gamla Spítalanum en húsin standa hlið við hlið við Suðurgötu. Þorvaldur Jóhannsson, formaður HSSS rifjaði upp byggingarsöguna við afhendinguna.
Gamli Spítalinn var afhentur Seyðisfjarðarkaupstað um aldamótin 1900. Forgöngumaður um bygginguna var danski lyfsalinn Hans Jörgen Ernst og fór hann á eigin vegum til Kaupmannahafnar 1896 og safnaði þar kr. 3650 í reiðufé.
Í upphafi var ráðgert að spítalinn yrði fyrir allt Austurland. Kom þá upp hrepparígur og Suður –Múlasýsla skarst úrleik, þar eða ráðamenn þar vildu spítalann á Eskifjörð eða Reyðarfjörð.
Þrátt fyrir þetta var hafist handa um að koma upp húsinu sem var keypt tilhöggið frá timburskógkaupmanni Fredriksen í Mandal í Noregi og fylgdu norskir smiðir með. Tilboðið frá Mandal hljóðaði upp á kr. 9.500. Viðurinn í spítalann kom með Vaagen (skipi útgerðar Ottós Watne) 8. ágúst 1898.
Erfitt reyndist að kaupa búnað fyrir spítalann eftir að nefndarmenn sneru baki við Ernst lyfsla, en honum hafði verið falið að semja við danskt fyrir tæki um kaupin. Þeir vildu heldur fela Englendingi nokkrum að sjá um kaupin en sá tengdist Botnvörpufélaginu Garðari .
Eitthvað vafðist það fyrir Garðarsmönnum að útvega búnaðinn svo spítalinn komst ekki í gagnið fyrr en 1. júlí1900 en húsið hafði þá staðið autt og ónotað í eitt og hálft ár. og ónotað í eitt og hálft ár. Í upphafi voru 10 rúm fyrir sjúklinga en flest urðu þau 14 1939-1945. Þau eru 18 í dag.
Frá vinstri: Guðjón Hauksson forstjóri HSA, Þorvaldur Jóhannsson formaður HSSS, Adolf Guðmundsson úr stjórn HSSS, Kristín G.Sigurðardóttir deildarstjóri hjúkrunardeildar HSA Seyðisfirði, Pétur Heimisson framkvæmdastjóri lækninga HSA, Lukka S Gissurardóttir deildarstjóri heilsugæslu HSA Seyðisfirði, Svava I. Sveinbjörnsdóttir fjármálastjóri HSA, Stefanía Stefánsdóttir rekstararstjóri HSA Seyðisfirði, Nína Hrönn Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar HSA, Rúnar Reynisson yfirlæknir HSA Seyðisfirði. Mynd: Ómar Bogason