Skip to main content

Húsvíkingar bjóða Austfirðingum í rútuferðir í leikhús

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. nóv 2012 22:43Uppfært 08. jan 2016 19:23

husavik_oho.jpg
Leikfélag Húsavíkur og ferðaþjónustuaðilar á svæðinu bjóða Austfirðingum upp á leikhúsferðir á söngleikinn Ást sem leikfélagið frumsýnir á laugardag.

Með þessu vilja Húsvíkingar gera tilraunir til að stækka markaðssvæði sitt en þetta mun vera í fyrsta skipti á Íslandi sem áhugaleikfélag hrindir af stað svo stóru samvinnuverkefni.

„Leikfélag Húsavíkur vill með sýningu sinni á Söngleiknum Ást hvetja landsmenn alla til að koma til Húsavíkur og kynnast höfuðborg ástarinnar af eigin raun - með því að sjá Söngleikinn Ást og njóta ferða, gistingar og góðs matar að auki hjá samvinnuaðilum Leikfélagsins,“ segir í tilkynningu.

Ást er eftir þá Vesturportsfélaga Gísla Örn Garðarsson og Víking Kristjánsson. Leikstjóri er Jakob S. Jónsson, sem meðal annars vann með Leikfélagi Reyðarfjarðar á uppsetningu á Baðstofunni.

„Í verkinu segir frá Nínu sem birtist einn daginn á elliheimilinu og ætlar sér ekki að vera þar nema skamma stund – en svo hittir hún Grjóna og ástin fyllir líf þeirra – en það eru víst ekki allir ánægðir með það!“

Frumsýning er á laugardaginn og sýnt verður fram í desember.