Skip to main content

Hvað er að gerast á Austurlandi um páskana?

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. apr 2017 17:28Uppfært 12. apr 2017 17:49

Páskafjör á skíðasvæðum, sorg Maríu við krossfestinguna, morgunpepp, píslarvættisganga, tónleikar til minningar um David Bowie og opnun nýrrar sýningar í Skaftfelli á Seyðisfirði er meðal þess helsta sem í boði er á Austfjörðum um páskahelgina


„Þetta er ótrúlega fallegt verk sem byggist upp á tólf köflum sem allir fjalla frá mismunandi sjónarhornum um kvöld Maríu Meyjar á að son sinn krossfestan um leið og hún reynir að sætta sig við að hann sé að fórna sér fyrir mannkynið.“

Þetta segir söngkonan Erla Dóra Vogler sem á föstudag syngur Stabat mater ásamt Kristínu R. Sigurðardóttur við undirleik Þórðar Sigurðarson.

Verkið er frá átjándu öld eftir tónskáldið Giovanni Battista Pergolesi. Hefð er fyrir að syngja það á föstudaginn langa og hafa bæði Erla og Kristín tekið þátt í slíkum flutningi í Reykjavík en Erla veit ekki til þess að það hafi áður verið flutt á Austurlandi.

Inn á milli les Davíð Baldursson, sóknarprestur á Seyðisfirði, íslenska þýðingu Matthíasar Jochumssonar á latneska miðaldaljóðinu sem Pergolesi gerði tónlistina við. Flutningurinn hefst klukkan 16:00 í Tónlistarmiðstöð Austurlands. Aðgangur er ókeypis.

Útivist

Á föstudag klukkan ellefu verður lagt af stað í árlega píslarvættisgöngu frá Valþjófsstað að Skriðuklaustri í Fljótsdal. Á Skriðuklaustri er einnig opin sýningin „Af jörðu ertu komin“ þar sem sýnd eru duftker úr postulíni og tré eftir Kristbjörgu Guðmundsdóttur, Jón Guðmundsson og Ólaf Sveinsson.

Í Fjarðabyggð er fjölbreytt dagskrá undir merkjum Páskafjörs. Miðpunktur hennar er í Oddsskarði sem björgunarbátarall, tírólahátíð og brettakvöld.

Ferðafélag Fjarðamanna stendur fyrir göngu á páskadagsmorgun í Páskahelli og göngu á Grænafell. Á laugardag er páskaeggjaleit á Mjóeyri og snjósleðaferð á Gerpissvæðið á föstudag.

List á laugardegi

Morgunhressir geta mætt í morgunpepp með Elínu Kára í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan tíu á laugardagsmorgun. Morgunpeppið er hvatningarfyrirlestur þar sem Elín miðlar hugleiðingum sínum um jákvætt hugarfar.

Sama dag opnar í Skaftfelli á Seyðisfirði sýning Hönnu Kristínar Birgisdóttur sem ber yfirskriftina Þögul athöfn. Hanna Kristín er 28 ára gömul, útskrifuð frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2014. Sýningarstjóri er Gavin Morrison.

Á laugardagskvöld stendur síðan BRJÁN fyrir stórtónleikum í Egilsbúð til minningar um David Bowie þar sem sjö manna hljómsveit, auk söngvara, spilar þekktustu lög Bowie. Dagskráin var frumflutt í Egilsbúð í júní í fyrra.

Þá stendur yfir í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík málverkasýning Þorgeirs Helgasonar. Þorgeir er innfæddur Breiðdælingur en býr nú í Kópavogi. Þar sýnir hann olíumálverk, myndir með blandaðri tækni og vatnslitamynd. Sýningin stendur til 22. apríl.