Skip to main content

Hver er hesturinn?

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. jún 2016 14:40Uppfært 21. jún 2016 14:43

RÚV hefur að undanförnu verið að fikra sig áfram með svokallað hægvarp að norskri fyrirmynd og á aukastöðinni RÚV2 er nú hægt að fylgjast með ferð útsendingarbifreiðar um hringveginn við undirleik hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Hestar vöktu mikla athygli áhorfenda þegar farið var um Egilsstaði í morgun.

 

Í frétt á vef RÚV kemur fram að þegar bifreiðinni var lagt á bílastæði við Hótel Hérað á Egilsstöðum hefði athygli áhorfenda fljótlega farið að beinast að rauðu hrossi sem er á beit þar skammt frá. Er ljóst að fólk víðsvegar að úr heiminum er að fylgjast með og létu nokkrir þeirra til sín taka á samskiptavefnum Twitter. Fór svo að hrossið er nú með sína eigin Twitter-síðu.

 

Þetta var hins vegar ekki eina hrossið sem vakti athygli þeirra sem fylgdust með hægvarpinu því Twitternotandinn @101reykjavikuk birti einnig meðfylgjandi skjáskot á síðu sinni en þar virðist, við fyrstu sýn, hestur vera undir stýri á bifreið sem ekið er fyrir framan myndavélarnar.

 

Ólíklegt er þó að um eiginlegan hest sé að ræða og þiggur Austurfrétt allar upplýsingar um það hver stóð á baki þessum athyglisverða gjörningi.

 

Ekki er óþekkt að menn noti tækifærið í slíkum hægvarpsútsendingum til þess að glettast eitthvað við myndavélina. Var það meðal annars nokkuð algengt þegar norska ríkissjónvarpið sýndi frá ferðum strandferðaskips um firði Noregs, að bátum væri siglt til móts við skipið og ýmis dáraskapur viðhafður.