![](/images/stories/news/2016/greta_osk_ljosmyndasyning.jpg)
„Hvert augnablik er nýtt og fallegt“; Ljósmyndasýning í Sláturhúsinu
Þessa dagana stendur yfir í Sláturhúsinu ljósmyndasýningin „Óður til hversdagsleikans; 121 dæmi úr daglega lífinu“, eftir Grétu Ósk Sigurðardóttur.
Gréta Ósk, húsfreyja á Vaði í Skriðdal, útskrifaðist úr grafíkdeild MHÍ árið 1988 og hefur síðan tekið þátt í fjölda alþjóðlegra sýninga með grafíkverk sín.
Múlakollurinn í Skriðdal er í aðalhlutverki sýningarinnar. „Múlakollurinn blasir við mér útum eldhúsgluggann, svefnherbergisgluggann, stofugluggann og af hlaðinu. Ég á ábyggilega þriðja þúsund myndir af þessu fjalli, svo það var miklu meiri vinna en ég hélt að koma upp þessari sýningu,“ segir Gréta Ósk í samtali við Austurfrétt.
Gréta Ósk segir allar myndirnar vera teknar í daglega lífinu, annaðhvort heima á bæ eða í daglegum göngutúrum sínum.
„Ramminn er einmitt bara daglega lífið á Vaðslandi, nema ein og ein þegar við tíkin mín höfum gengið eftir Norðurbyggðarveginum ef móinn er torfær, auk þess sem ein og ein getur verið tekin frá Sauðhagalandi.
Pælingin er hvort hversdagsleikinn sé nokkuð grár, eins og sagt er, hvert augnablik er nýtt og fallegt og Múlakollurinn getur sem best verið dæmi um það. Það þarf náttúrulega bara að koma auga á fegurðina í hverju augnabliki í hversdagsleikanum.“
Sýningin verður opin alla virka daga milli 13:00 og 17:00 til síðasta vetrardags.