Hvetja fólk til að ganga og gleðjast
„Það verður gengið í vel yfir 40 sveitarfélögum sem er langt fram úr okkar björtustu vonum. Sveitarfélögin hafa líka verið dugleg að kynna verkefnið þannig að við búumst við mjög góðri þátttöku,“ segir Ólöf Kristín Sívertsen, verkefnastjóri hjá Ferðafélagi Íslands.
Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands verða á öllu landinu nú í september og eru einn af hápunktunum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu.
Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í septembermánuði. „Um fjölskylduvænar göngur er að ræða, taka u.þ.b. 60-90 mínútur. Tilgangurinn er að hvetja fólk til að ganga og gleðjast, njóta útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap. Ganga er ódýr og skemmtileg heilsubót sem flestir geta stundað, en það er um að gera að virkja börnin með og vera þannig góðar fyrirmyndir og ala upp heilbrigða kynslóð,“ segir Ólöf Kristín.
Gengið á fjórum stöðum í dag
Fyrstu göngurnar eru í dag, en gengið verður á fjórum stöðum á Austurlandi, á Seyðisfirði, Fljótsdalshéraði, Fáskrúðsfirði og Djúpavogi. Allar göngurnar hefjast klukkan 18:00.
Nánar má lesa um hverja göngu hér.