„Í fjarlæga kalda Íslandi var ástin“

Nú eru 40 ár liðin frá því fyrsti hópur erlendra kvenna kom til starfa í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Margar þeirra halda enn sambandi gegnum Facebook-hóp og ein þeirra býr enn á Fáskrúðsfirði. Frá þessu segir á heimasíðu Loðnuvinnslunnar.



Á heimasíðunni segir að þann 19. janúar 1977 hafi tíu ungar konur frá Ástralíu og Nýja Sjálandi komið á Fáskrúðsfjörð til þess að vinna í fiski hjá Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar. Fleiri hópar komu í kjölfarið og stoppaði hver hópur í nokkra mánuði. Einhverra hluta vegna var alltaf talað um „áströlsku stelpurnar“ þó þær kæmu víðar að, til dæmis Englandi, Suður Afríku og Ísrael.

Þar segir einnig að fyrir nokkrum árum hafi ein úr fyrsta hópnum, Susan Chisholm, ákveðið að leita leiða til að finna sem flestar þessara stúlkna og stofnaði að því tilefni Facebook hópinn „Faskrudsfjordur Overseas Workers 1977-1986“. Með því tókst henni að hafa upp á mörgum þeirra. Sumar þeirra hafa endurnýjað kynnin og hittast árlega og hafa þá gjarnan með sér minjagripi frá tíma sínum á Fáskrúðsfirði.

Áströlsku stelpurna á Fáskrúðsfirði

Hótel Valhöll


Vissu ekki hvar á landinu þær myndu lenda

Esther Brune frá Suður-Afríku kom til Fáskrúðsfjarðar í janúar árið 1981, þar sem hún býr enn, 36 árum síðar. Berglind Agnarsdóttir tók viðtal við hana fyrir heimasíðuna.

Í því segir að Esther hafi ásamt tveimur vinkonum sínum ákveðið að halda á vit ævintýrana með því að ráða sig til vinnu í fiski á Íslandi. Fóru ráðningarnar fram gegnum umboðsskrifstofu í London og þegar þær réðu sig til starfa vissu þær ekki hvar á Íslandi þær myndu hafna.

„Við vinkonurnar vildum fara til Íslands og vinna í fiski í sex mánuði, safna peningum og fara svo í ferðalag um Evrópu. Við gerðum það, keyptum okkur „rúgbrauð“ og ferðuðumst um Evrópu,“ segir Esther.

Auk vinkvennanna þriggja komu stúlkur frá Ástralíu, Englandi og Nýja Sjálandi til Fáskrúðsfjarðar á sama tíma. Allt var á kafi í snjó þegar þær náðu loks á leiðarenda, en margar úr hópnum höfðu aldrei séð snjó og var Esther ein af þeim. Hún segir að allt hafi þetta verið öðruvísi og skrítið, bæði snjórinn og sú staðreynd að lítið var um tré á Íslandi.


Ástin batt hana á Fáskrúðsfirði

Bjuggu stúlkurnar í verbúðinni Valhöll, en þangað var ráðinn ungur maður að nafni Kjartan Reynisson. Rugluðu þau saman reitum og hafa búð saman síðan. Esther segir það þó ekki hafa verið auðvelda ákvörðun að setjast að svo fjarri heimahögunum.

„Aldeilis ekki, það var mjög erfið ákvörðun. Í heimalandinu var allt sem ég þekkti og þótti vænt um, fjölskylda og vinir en í fjarlæga kalda Íslandi var ástin – þetta var alls ekki auðvelt, en ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun minni.

Það sem var erfiðast að venjast var veðurfarið, á veturnar var það dumbungurinn og gráminn en á sumrin var það birtan, það kom ekki nótt. Það tók mig um það bil tíu ár að venjast þessu og nú læt ég ekki veðrið á mig fá, ég gleðst yfir fallegri birtu hvort heldur að vetri eða sumri eins og aðrir íslendingar.“

Esther verður í viðtali í þættinum Að austan sem hefur göngu sína á nýjan leik um miðjan febrúar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.