Innrás úr Austri: Austfirðingar kallaðir til í Hörpu

Stórleikar með úrvali austfirskra tónlistarmanna verða haldnir í Hörpu í Reykjavík á laugardagskvöld. Forsprakki tónleikanna hlakkar til að koma brottfluttum Austfirðingum og forvitnum borgarbúum á óvart.


„Við verðum með allar tegundir tónlistar og listamenn af öllu Austurlandi,“ segir Jón Hilmar Kárason, gítarleikari úr Neskaupstað, sem stendur að baki tónleikunum.

Byrjað verður á BLIND tónleikunum þar sem bundið er fyrir augu gesta meðal tónlist er flutt. Jón Hilmar spilar þar sjálfur ásamt Guðjóni Birgi Jóhannssyni hljóðlistamanni og sagnaþulunni Berglindi Ósk Agnarsdóttur.

Jón Hilmar er líka í sveitinni Dútl ásamt Þorláki Ægi Ágústssyni og Orra Smárasyni sem gefur á næstunni út sína fyrstu plötu en sveitin spilar gítartónlist í anda sjöunda áratugarins.

Bræðurnir Dóri og Villi Warén mynda undirstöðuna í rokkhljómsveitinni Vax en lokanúmerið verður Fura, sveit söngkonunnar Bjartar Sigfinnsdóttur frá Seyðisfirði en hún hefur fengið fínar viðtökur í Danmörku þar sem hún starfar.

Jón Hilmar segist hafa fengið hugmyndina að tónleikunum þegar hann sá auglýsta styrki til tónleikahalds í Hörpu. „Mér datt í hug að sækja um og fékk styrk þannig ég ýtti þessu áfram og kláraði.“

Tónleikarnir verða í Norðurljósasalnum, næst stærsta sal hússins, sem tekur um 400 manns í sæti. „Við þurfum á öllum Austfirðingum í borginni að halda.

Við viljum höfða til allra þeirra sem hafa gaman af að láta koma sér óvart með einhverju sem þeir hafa ekki upplifað áður sem og brottfluttum Austfirðingum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.