JEA 2011: Enn fersk eftir 23 ár: Myndir
Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi (JEA) er elsta jazzhátíð landsins og hefur verið haldin undanfarin 23 ár. Hátíðin í ár var að venju fjölbreytt og skemmtileg og voru tónleikastaðir eins og síðustu ár Egilsstaðir, Seyðisfjörður og Neskaupstaður.
Hátíðin hófst á sama degi og hún gerði er Jón Múli Árnason setti þá fyrstu 1988, 23. júní en Tríó Sunnu Gunnlaugs og Sigurgeir Sigmunds með Gary Moore heiðurstónleika sína hófu leik í Herðubreið Seyðisfirði. Þarna var góð blanda af jazz tónlist Sunnu og blúsuðum og rokkaðari tónum Sigurgeirs og félaga. Frábærir tónlistarmenn á ferðinni og skemmtilegt kvöld.
Á föstudagskvöldi var svo röðin komin að Ragnheiði Gröndal og Ylfingunum en þar sem fyrr er valinn maður í hverju rúmi. Þessir tónleikar fóru fram í Frystiklefa Sláturhússins á Egilsstöðum sem er mjög skemmtilegur salur fyrir tónleika af þessari gerð. Ragnheiður fór á kostum og jazzin dunaði um Egilsstaði. Að þessum tónleikum loknum var haldið í Valaskjálf þar sem Dúndurfréttir stigu á stokk. Þeir spiluðu „Best of“ dagskrána sína sem saman stendur af bestu lögum Led Zeppelin, Deep Purple, Pink Floyd og fleirum. Frábært band og lítið um jazz en frábærir tónleikar.
Laugardagurinn fór fram í Neskaupstað í samstarfi við BRJÁN og hófst á gítarsýningu og námskeiði í Egilsbúð. Um fimmtíu gítarar af Austurlandi og víðar voru sýndir. Björn Thoroddsen og Sigurgeir Sigmunds héldu svo námsskeið fyrir áhugasama tónlistarmenn og gaman að sjá hve ungir sem eldri skemmtu sér vel og fræddust um ýmislegt tengt gítarleik.
Á Rauða Torginu voru þau Ragnar Kjartansson og Ásdís Sif með listrænan eftirmiðdag og horft var á veruleikan frá ýmsum sjónarhornum. Um kvöldið var svo Gítarveisla Björns Thoroddsen í Blúskjallaranum og þar komu fram frábærir gítarleikarar sem léku mjög fölbreytta tónlist allt frá klassískum gítarleik til frábæra jazztóna frá Jóni Páli Árnasyni uppí Frank Zappa sem Guðmundur Höskuldsson spilaði. Frábært kvöld sem munað verður eftir.
Á sunnudag var svo gítarsýningin fram í Sláturhúsinu ásamt flottu námsskeiði og tónleikum með Birni Thor og Svani Vilbergs sem er frábær klassískur gítarleikari frá Stöðvarfirði. Á Seyðisfirði var svo Smörrebröðs Jass í Skaftfelli sem var fastur liður þar í allt sumar.
Hátíðin gekk vel og skemmtu þeir gestir sem komu sér gríðarlega vel enda ætíð mikil gæði á JEA. Margar frábærar hugmyndir kviknuðu fyrir næstu hátíð enda er það nú eitt af því skemmtileg við hátíðir að margir listamenn koma saman og spjalla saman um eitt og annað. Verum stolt af öllum frábæru tónlistarhátíðunum sem við eigum hér fyrir austan og sækjum þessa viðburði eins og við getum. Það er alltaf skemmtilegra en við höldum hvort sem það er öskrandi rokk á Eistnaflugi eða svingandi jazz á JEA.
Myndir: Agl.is/GG