Þjóðfundur á Austurlandi
Þjóðfundur var settur á Austurlandi klukkan tíu í morgun. Fundurinn er sá fyrsti í röð átta þjóðfunda sem haldnir verða víðs vegar um land á næstunni. Rúmlega 70 manns alls staðar að af Austurlandi sækja fundinn, það er mæting sem svarar til að það mættu 1200 til 1500 manns á slíkan fund á höfuðborgarsvæðinu.Að sögn Önnu Margrétar Guðjóndóttir í verkefnisstjórn Þjóðfundarins, stendur fundurinn frá klukkan 10 til 16 í dag á Hótel Héraði á Egilsstöðum, með hléi til að horfa á leikinn milli Íslendinga og Frakka í undanúrsliðum Evrópumótsins í handbolta.
,,Þetta er fyrsti fundurinn í röð átta funda sem haldnir verða vítt og breytt um landið, ég er mjög ánægð með mætinguna og dreifingu fundarmanna af Austurlandi en þeir eru alls staðar að úr fjórðungnum. Fundurinn er haldinn til að leita að sóknarfærum fyrir Austurland, bæði fyrir atvinnulíf og samfélag.
Fundarformið er á þá leið að safnað er hugmyndum á hverju borði þar sem sitja um tíu manns, síðan fara hugmyndirnar gegn um síu þar sem hugmyndin er metin er gagnsemi hennar fyrir fjóðunginn áður en hún er lögð fram frá fundinum. Lokaafurð fundaherferðarinnar er síðan, Sóknaráætlun fyrir Ísland 20/20.
Fundurinn er haldinn að frumkvæði ríkisstjórnarinnar, þetta er víðfeðmt og býsna fjölbreytt verkefni sem öll ráðuneyti taka þátt í, einnig koma að fundinum Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Stéttarfélögin og Háskólarnir í landinu. Hugmyndin er að fara um allt land og funda með hagsmunaaðilum og íbúum.
Við sækjum fyrirmyndir út um allan heim auk þess til stóra þjóðfundarins sem var í Laugardalshöllinni í haust. Írar hafa til dæmis verið með svona sóknaráætlanir fyrir framfarir í gangi og sú fjórða er nú í gangi hjá þeim.
Reiknað er með fimm til sex hugmyndum frá hverju borði sem verða útfærðar í fundarlok", sagði Anna Margrét.