Jólatónleikar að hætti Mahaliu Jackson
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. nóv 2012 12:48 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Esther Jökulsdóttir söngkona ásamt hljómsveit standa nú í sjötta sinn fyrir tónleikum þar sem þekktustu jóla- og gospellög hinnar þekktu söngkonu, Mahaliu Jackson, verða flutt. Að þessu sinni verður einnig boðið upp á tónleika á Egilsstöðum, í heimabyggð Estherar.
Efni af hljómplötu Jackson, Silent Night, verður sem fyrr í aðalhlutverki á tónleikunum auk þess sem áheyrendur fá að njóta gospelperla af hljómplötunum I believe og You never walk alone.
Til þessa hafa tónleikarnir einvörðungu verið haldnir í Reykjavík, en í ár munu Esther og félagar leggja land undir fót því fimmtudaginn 29. nóvember geta Austfirðingar hlýtt á tónleikana í Egilsstaðakirkju kl. 20.00.
Með Esther syngur er karlakvartett, skipaður þeim Benedikt Ingólfssyni bassa og tenórunum Einari Clausen, Skarphéðni Hjartarsyni og Erni Arnarsyni. Þá fylgir henni hljómsveit sem í eru: Aðalheiður Þorsteinsdóttir, pianó, Erik Qvick trommum, Gunnar Gunnarsson á Hammondorgel og Gunnar Hrafnsson á kontrabassa. Útsetningar laganna eru unnar af Aðalheiði og Skarphéðni.