![](/images/stories/news/2016/Gongugarpar_jokuldalur_web.jpg)
Jökuldælingar ganga saman á milli bæja í vetur
„Göngum saman bæjarleiðir á dalnum“ er heiti gönguferða sem Jökuldælingar hafa sett á laggirnar. Hugmyndin er að íbúar dalsins og aðrir velunnarar gangi milli bæja annan hvern laugardag í vetur. Fyrsta gangan var laugardaginn 6. febrúar síðastliðinn og var gengið frá Hrólfsstöðum í Hauksstaði en um helgina var gengið frá Hofteigi í Hjarðarhaga.
„Við reyndar lengdum gönguna og fórum alveg að Litla gili. Við gengum því tveimur kílómetrum meira en áætlað var, þannig var stemningin,“ segir Lilja Óladóttir á Merki, en hún hefur fengið þann heiður að vera göngustjóri og skipuleggjandi verkefnisins.
Gaman saman
Það voru þrettán manns sem mættu í fyrstu gönguna og var sú yngsta fjögurra ára. „Það var mikið spjallað og stoppað til að horfa eftir örnefnum og þegar svona margir koma saman þekkja allir einhverja sögur sem er svo gaman. Hugmyndin er svo að fá með bændur frá viðkomandi bæ og segi okkur frá því landeigendur eru sínu landi kunnugastir ,“ bætir hún við.
En hvernig kemur þetta til? „Það var nú bara þannig að hún Ingifinna á Hvanná kom að tali við mig um áramótin og sagði að sér fyndist hún vera orðin svo vond til gangs núna í haust og væri það vegna hreyfingarleysis hélt hún. Hún spurði mig hvort ég væri til að stofna til þessara gönguferða bara til þess að fá hreyfingu og góðan félagskap. Það má því segja að hún eigi hugmyndina að þessu.“
Allir velkomnir
Lilja segir að leiðirnar sem verða farnar séu ekki erfiðar og því þurfi þátttakendur ekki að vera þaulvanir göngugarpar. En hún leggur áherslu á að fólk mæti í góðum gönguskóm og klæði sig eftir veðri og taki að sjálfsögðu með sér gott nesti. En eru göngurnar einungis fyrir þá sem búa á Jökuldal?
„Nei alls ekki. Það eru allir velkomnir og hvetjum þá eindregið sem áhuga hafa að slást í för með okkur. Við finnum fyrir áhuga og ég veit að það á eftir að fjölga í hópnum. Í Jökuldal hefur gerst heilmargt í gegnum aldirnar sem gaman verður að rifja upp svo þetta á eftir að verða ansi fróðlegt og skemmtilegt í vetur,“segir Lilja að lokum
Nánari upplýsingar um göngurnar má finna á Facebook undir heitinu Göngum saman bæjarleið í vetur.
Slegist var í för með gönguhópnum í síðasta þætti Að austan.