Jón í Möðrudal gat allt nema að úthýsa gestum

Út september stendur yfir sýning um Jón A. Stefánsson, bónda, fjöllistamann og þúsundþjalasmið frá Möðrudal á Fjöllum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Jón var goðsögn í lifanda lífi og virðast listaverk hans á ný vera að öðlast sess í austfirskri menningu.


„Hann var sérstakur karakter og eins konar þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Rödd hans var skræk og hann gerði út á að vera öðruvísi. Hann var mikill „performer“ og gerði út á að fara með gesti í kirkjuna, spila þar á orgelið og syngja. Af því eru til margar sögur.

Hann hafði líka gaman af að reka menn á gat í tónfræði og þess háttar sem hann var vel að sér í,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands en fjallað var um sýninguna í síðasta blaði Austurgluggans.

Jón og kona hans Þórunn Oddsen bjuggu á hæsta byggða bóli Íslands, afskekktum og harðbýlum stað sem þó var í alfaraleið þeirra sem fóru milli Norður- og Austurlands.

Leita að munum eftir Jón

Jón var goðsögn í lifanda lífi: sögumaður, tónskáld, myndlistarmaður þúsundþjalasmiður sem sótti innblástur í náttúruna.

„Hann var mikið náttúrubarn og til eru viðtöl þar sem hann talar um að öll listaverk séu dauð því enginn manngerður litur geti fangað litina og birtuna í náttúrunni,“ segir Elsa.

„Hann nýtti hvert tækifæri til að mála og fanga fegurð náttúrunnar. Hann var afar afkastamikill og lá ekkert á þessum verkum sínum heldur gaf þau út um allar trissur. Jón lét engan eiga inni hjá sér greiða heldur launaði fyrir sig með málverkum eða útskornum bréfahnífum. Margir sem komu sem gestir voru leystir út með gjöfum og eiga þess vegna málverk eftir hann.“

Eitt af markmiðum sýningarinnar er að vekja athygli á Jóni og reyna að kortleggja þau verk sem til eru eftir hann. „Hann merkti þau sjaldnast og við óttumst að sögurnar á bak við verkin glatist í tímans rás. Þess vegna viljum við heyra í fólki sem á málverk eða gripi eftir Jón,“ segir Elsa.

Kirkjan loks teiknuð

Þórunn lést árið 1944 en Jón lifði hana í hartnær þrjá áratugi og lést árið 1971. Eitt hans mikilfenglegasta verk er tileinkað henni, kirkjan í Möðrudal, sem Jón hannaði og smíðaði nánast einn. Altaristaflan er líka landsfræg en hún sýnir Jesús flytja fjallræðuna og hafa sumir hent gaman af því að svo virðist sem Kristur sé að renna sér niður fjallið til lærisveinanna. „Það var gríðarlegt afrek að fá efnið og koma kirkjunni að mestu leyti upp sjálfur á þessum stað,“ segir Elsa.

„Jón var eitt sinn spurður að því hver hefði teiknað kirkjuna og hann svaraði að enginn hefði gert það. Hann hefði bara hugsað sér hana svona og þess vegna væri hún svona. Ef fólk vildi væri hægt að mynda eða teikna hana upp núna.“

Sem er loks gert. Íris Lind Sævarsdóttir, myndlistarkona á Egilsstöðum og einn afkomenda Jóns, málaði kirkjuna á stóran glugga í sýningarsalnum. „Þar með má segja að kirkjan sé loks teiknuð,“ bætir Elsa við.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.