Jörgen Nilsson í yfirheyrslu: Íslendingar eru miklu meira ligeglad en Danir

Jörgen Nilsson, tómstundaleiðbeinandi í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ á Laugum í Sælingsdal heimsækir Norðfjörð og Egilsstaði um helgina með fyrirlestra um jákvæð samskipti og hvernig við brjótum niður múra undir yfirskriftinni „Leikum okkur.“


„Ég ætla að kenna Austfirðingum jákvæðan tilgang. Það má ekki alltaf hlusta bara á börnin því þau vita ekki endilega hvað er gaman eða hvað hægt er að gera. Þau segja stundum bara nei ef þau vita ekki hvað er að fara að gerast.

Ég vil fá fólk til að opna augum fyrir öllum möguleikunum sem við gleymum stundum því við lokum okkur inni. Ég vil brjóta niður veggina sem margir setja upp, bæði hjá sjálfum sér og öðrum og fá fólk til að opna sig meira með góðum og jákvæðum samskiptum.“

Fullt nafn: Jörgen Nilsson

Aldur: 46 ára

Starf: Tómstundaleiðbeinandi í Ungmennabúðunum á Laugum í Sælingsdal

Maki: Anna Margrét Tómasdóttir

Börn: Já, fullt fjögur.

Uppáhalds litur og af hverju? Appelsínugulur. Það er svo svo bjartur og glaðlegur litur.

Hvað finnst þér um Austurland? Mér þykir vænt um það. Tengdafaðir minn er frá Djúpavogi. Ég hef ekki komið þangað oft en ég hlakka mikið til helgarinnar.

Hverjir eru þínir helstu kostir? Kraftmikill og jákvæður

Hverjir eru þínir helstu ókostir? Örugglega þeir sömu og kostirnir. Sumir geta fengið nóg af þessu.

Mesta undur veraldar? Þumalputtinn og framheilinn sem skilja okkur frá öðrum dýrum. Annars er ég hrifinn af píramídunum, sérstaklega í Suður-Ameríku.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að lesa hugsanir. Veistu hvað er hægt að gera með því? Mig langar ekki geta lyft lest eða flogið. Það er hægt að fljúga með vélum en það getur enginn í alvörunni lesið hugsanir.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Bohemian Rhapsody með Queen er besta lag í heimi.

Vínill eða geisladiskur? Ég er ekki strangtrúaður og myndi trúlega kaupa geisladisk í dag því hann tæki minna pláss í hillunni. Ég var hins vegar einu sinni plötusnúður og það var miklu meira kúl að vera DJ með plötu heldur en tölvu eins og er í dag.

Hvað eldar þú oft í viku? Ég held ég ljúgi ekki þegar ég segi að minnsta kosti þrisvar.

Hvernig líta kosífötin þín út? Gráar joggingbuxur og víður síðermabolur.

Hvað bræðir þig? Börn mín – og barnabarnið mitt. Þótt það haldi með Liverpool. Ég er ekki hrifinn af því.

Syngur þú í sturtu? Alltaf. Maður á að gera það.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Er til eitthvað sem heitir týpískur dagur? Ég er með sjö mismunandi. En ég mæti í vinnu klukkan níu, funda með starfsfólki. Kenni síðan námskeið fram að mat, funda þá aftur með fólkinu til klukkan fimm. Síðan undirbý ég mismunandi viðburði fyrri kvöldið.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ghandi og Dalai Lama eru mjög áhugaverðar persónur, sérstaklega Daliai.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Hreinskilni og jákvæðni.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að þrífa. Mig langar að hafa fínt í kringum mig en mér finnst viðbjóðslega leiðinlegt að þrífa. Ég vildi að húsið mitt gæti bara verið hreint.

Settir þú þér áramótaheit? Nei, ég myndi aldrei halda það. Það kemur alltaf eitthvað upp á.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Dalai Lama. Tilgangur hans með lífinu er magnaður

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Kannski væri nær að spyrja hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Ég ætlaði að verða atvinnumaður í íþróttum, helst fótbolta.

Hver er helsti munurinn á íslenskri og danskri menningu? Munurinn er að minnka en það var auðveldara að gera hluti á Íslandi en í Danmörku. Þegar ég kom fyrst til Íslands var það kúrekaland, tækifærin voru alls staðar og það þurfti bara að taka þau, sem mér fannst geðveikt. Því miður hafa sumir misnotað frelsið og því færist áherslan á að gera fólki erfiðra fyrir að byrja.

Það er sagt að Danir séu ligeglad en Íslendingar eru miklu meira ligeglad. Daninn er svo rosalega ferkantaður og ég er ekki mjög hrifinn af kössum. Ég hef fengið fullt af tækifærum á Íslandi sem ég hefði aldrei fengið í Danmörku.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Klárlega fara til Ástralíu, skila Laugum af mér í góðu ástandi þegar þar að kemur og fara á alvöru Ted Talk ráðstefnu.

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið þitt? Það er ofsalega gefandi að sjá þessa unglinga vaxa og dafna á fjórum dögum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.