Kærleikskúlan og jólaóróinn í sölu um helgina

Félagar í Soroptimistaklúbbu Austurlands hefja um helgina sölu á kærleikskúlum og jólaóróum frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra en salan er árlegt fjáröflunarverkefni.


Soroptimistaklúbbur Austurlands kemur nú að þessu verkefni í ellefta sinn og hafa Austfirðingar verið tryggir kaupendur. Klúbburinn fær 1000 krónur af andvirði hvers selds hlutar og er ágóðinn notaður í þágu fatlaðra barna og ungmenna á heimaslóðum.

Hann hefur til dæmis verið notaður til tækjakaupa fyrir sjúkraþjálfun og til kaupa á ýmiskonar hjálpartækjum fyrir einstaklinga. Einnig hefur sjóðurinn styrkt einstakling til þátttöku á vetrarólympíuleikum fatlaðra.

Síðast liðin ár hefur ágóðinn runnið til kaupa á lyftu í sundlaugina á Egilsstöðum. Lyftan er komin austur og er unnið er að uppsetningu hennar.

Gripir ársins

Kúlan í ár heitir Sýn og er eftir Sigurð Árna Sigurðsson. Kúlan hefur hvorki upphaf né endi og er táknmynd hringrásar lífsins og móður jarðar. Á endalausu yfirborði hennar eru þó tvær hliðar eins og á flestu, því inn í kúlunni er annað endalaust yfirborð. Tveir heimar – sá ytri og hinn innri.

Sigurður Árni gataði yfirborðið og segir að hugmynd verksins og kærleikur kúlunnar búi í gatinu. Í opinu er möguleiki að tengjast öðrum heimi, setja sig í spor annarra og öðlast víðara sjónarhorn – nýja sýn.

Pottaskefill er ellefti óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Í seríunni fara saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun og ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni.

Signý Kolbeinsdóttir, vöruhönnuður og einn eigenda Tulipop, og Snæbjörn Ragnarsson, betur þekktur sem Bibbi í Skálmöld, túlka sveininn. Signý með glæsilegri hönnun og Bibbi með sinni einstöku ritsnilld.

Selt verður í verslunum og á mörkuðum á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Fellabæ næstu þrjár helgar. Nánari upplýsingar má finna á www.saust.is

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.