Kajakræðarar haldnir til hafs á ný
Bresku kajakræðararnir Olly Hicks og George Bullard eru komnir af stað á ný á leið sinni frá Austfjörðum til Færeyja og sækist ferðin vel.
Vika er síðan þeir urðu frá að hverfa vegna slæmrar veðurspár og var þá bjargað í land á Stöðvarfirði með fiskibát. Þeir launuðu greiðann sem og húsaskjól og afnot af fötum í kjölfarið með að hjálpa til við veiðarnar.
Þeir réru frá Stöðvarfirði í gær og eru nú komnir lengra á 24 tímum en þeir fóru á 36 stundum í síðustu tilraun. Í hádeginu voru þeir vel austsuðaustur af Hornafirði.
Áætlað er að siglingin til Færeyja taki 4-6 daga og hafast félagarnir við í kajökunum allan tímann.
Olly og George lögðu af stað frá Grænlandi í byrjun júlí, réru þaðan að Hornströndum og meðfram ströndinni austur með landinu.
Eftir stopp í Færeyjum stefna þeir til Skotlands. Með ferðinni hyggjast þeir sannræna sögu um að grænlenskur frumbyggi, sem kom að landi á Skotlandi á 17. öld, hafi getað róið þangað alla leið á kajak.