![](/images/stories/news/2017/batahopp_nesk_juli17.jpg)
Kalt bara fyrst
Norðfirðingar hafa eins og aðrir Austfirðingar notið sumarblíðunnar síðustu daga. Við bryggjuna í miðbænum stunduðu ungir drengir þann leik að stökka í sjóinn fram af báti til að mæla sig.
„Við gerum þetta oftast þegar það er heitt. Það er kalt að hoppa fyrst, síðan verður hlýrra og hlýrra,“ sögðu þeir Arnar Freyr Sigurjónsson og Hafsteinn Þorgeirsson sem stukku í sjóinn þegar Austurfrétt átti leið um svæðið stuttu eftir hádegið.
Fleiri nutu veðurblíðunnar þar við, léttklæddir á bryggjunni eða dorguðu í rólegheitunum.
Arnari og Hafsteini fannst ekkert vont að lenda í sjónum. „Þú þarf bara að kunna að synda, þá er þetta í lagi.“
Meiri áhyggjur höfðu þeir af eiganda bátsins. „Ef hann kemur þá er maður dauður!“ sögðu þeir og skellihlógu.