Kirkjudagur aldraðra: Sektarkennd eftir að hafa skilað sínu?

Uppstigningardagur er í Þjóðkirkjunni sérstaklega helgaður elstu kynslóðinni og markaðist hann einnig af því tilefni í Egilsstaðakirkju.


Þar var á uppstigningardag haldin árviss guðsþjónusta þar sem öflugur sönghópur eldri borgara leiddi sönginn. Organisti og söngstjóri var Jón Ólafur Sigurðsson en góður hópur syngur reglulega undir hans stjórn í Hlymsdölum.

Boðið var upp á veglegt messukaffi í Safnaðarheimilinu að athöfn lokinni og voru það sjálfboðaliðar úr hópi messuþjóna Egilsstaðakirkju sem lásu upp í messunni og reiddu fram kaffiveitingarnar ásamt kirkjuverði. Um 60 manns tóku þátt í athöfninni.

Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir predikaði og þjónaði fyrir altari í guðsþjónustunni. Í predikun sinni vék hún, auk ritningartexta dagsins um himnaför Jesú, að málefnum eldri borgara og stöðu þeirra í samfélaginu.

Vitnaði hún m.a. í konu sem væri að nálgast nírætt og væri orðin þreytt á fréttaflutningi um að öldruðum væri stöðugt að fjölga og því fylgdi aukinn kostnaður fyrir þjóðfélagið. Sagði hún mikilvægt að þeir sem skilað hefðu sínu til samfélagsins þyrftu ekki að hafa sektarkennd yfir að nýta sér þjónustu á borð við hjúkrunarheimili.

Í raun væri auðvitað ákvætt fyrir samfélagið að öldruðum fjölgaði og lífslíkur ykjust. Viðhorfin í samfélaginu mótuðust hins vegar gjarnan af orðræðunni og þeim hugtökum sem væru notuð.

kirkjudagur eldriborgara mai16

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.