Kiwanisklúbbur gefur milljón til styrktar framhaldsskóladeildar á Vopnafirði
Kiwanisklúbburinn Askja veitti nýverið einnar milljónar króna styrk til uppbyggingar framhaldsskóladeildar á Vopnafirði í tilefni 45 ára afmælis klúbbsins. Foreldrar á Vopnafirði hafa um nokkurt skeið unnið að framgangi verkefnisins.
Þrír styrkir voru veittir í afmæliskaffinu sem haldið var fyrir skemmstu. Stærsta styrkinn fékk Vopnafjarðarhreppur sem fyrr segir til uppbyggingar deildarinnar. Að auki fékk Björgunarsveitin Vopni 100.000 krónur og þjónustuhópur aldraðra 150-200 þúsund.
Hópur foreldra hefur unnið að undirbúningi að stofnun deildarinnar. Hugmyndin er að nemendur sem útskrifast úr grunnskólanum geti verið heima hjá sér tvö ár í viðbót við framhaldsnám. Slík deild hefur verið rekin á Þórshöfn í samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum.
Í greinargerð sem forsvarsmenn foreldra unnu síðasta haust kemur fram að allir þeir nemendur sem lokið hafi námi við Vopnafjarðarskóla síðustu ár hafi farið í burtu í nám í framhaldsskólum en brottfall þeirra verið umtalsvert. Flestir hafa leitað í Lauga og Akureyri en gera ráð fyrir að hreinn kostnaður hvers nemanda, fyrir utan ferðalög, sé um 400.000 á ári.
Í greinargerðinni er því haldið fram að aukið námsframboð myndi hafa jákvæð áhrif á búsetuþróun á Vopnafirði. Foreldrar geti stutt börn sín á mikilvægu þroskaskeiði sem eigi að lækka brottfall og bæta námsárangur.
Nefnt er að Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands hafi sýnt áhuga á samstarfi um deildina. Komið yrði upp fjarnámsveri á Vopnafirði og að auki þyrftu nemendurnir að sækja nokkrar staðarlotur í viðkomandi skólum.