Kollaverkefni þorpsins
Þorpið hönnunarsamfélag á Austurlandi og Hús Handanna opnuðu í dag sýninguna Kollaverkefni Þorpsins. Sýningin er afrakstur hönnuða og handverksmanna á kollaverkefni Þorpsins.
Unnið var út frá fyrirmynd af trékollum sem voru algengir á heimilum á siðustu öld. Allir þátttakendur unnu út frá sama formi en höfðu frjálst val um efni og textílaðferð á setu.
22 pör hönnuða og handverksfólks eiga verk á sýningunni og 24 gripir eru til sýnis þar. 17 svokallaðir ömmukollar, 6 þorparar og 2 Egilsstaðakollar.
Svokallaðir Egilsstaðakollar voru framleiddir í Trésmiðju Kaupfélags Héraðsbúa á blómaskeiði hennar og voru vel þekktir á mörgum heimilum. Auk þess að vera skylduverkefni til margra ára í smíðakennslu við Alþýðuskólann á Eiðum.
Egilsstaðakollurinn er kominn aftur í framleiðslu fyrir húsgagnaverslunina Epal, framleiddur hjá Sigurði Ólafssyni á Aðalbóli. Kollurinn er einnig til sölu í Húsi Handanna á Egilsstöðum.
Fjölmenni var við opnun sýningarinnar í dag en sýningin verður opin í Húsi Handanna á Egilsstöðum næstu tvær vikurnar. Hús Handanna er opið 10-18 vika daga og 12-16 laugardaga.
Vildarvinir
Austurfrétt birtir fréttir að austan alla virka daga, öllum aðgengilegar og reiðir sig á auglýsingatekjur og styrki frá lesendum sínum til að halda úti þjónustunni.
Hvers virði finnst þér að hafa aðgang að fréttaþjónustu á borð við þessa?
Smelltu hér ef þú vilt styrkja Austurfrétt.