Kom að brúðguma um borð í hjólaskóflunni

Steinþóri Guðna Stefánssyni, framkvæmdastjóra Austurverks, varð heldur undrandi þegar hann kom að hjólaskóflu sinni á þriðjudag og hugðist fara að moka veginn yfir Fjarðarheiði. Í ökumannshúsi vélarinnar hitti hann fyrir erlendan ferðamann sem reyndist uppábúinn í brúðarfötum.

„Ég fór af stað klukkan fimm eða sex um morguninn. En veðrið var ómögulegt þannig við hættum við moka. Við biðum því fram til klukkan 13 með að reyna aftur.

Þegar ég kem í vélina, þar sem hún stendur á bílaplaninu við Fardagafoss, situr erlendur ferðamaður í vélinni. Ég varð dálítið hissa og spurði hann frekar skorinort hvern andskotann hann væri að gera þarna!“

Þannig hljómar lýsing Steinþórs, sem flestir þekkja sem Stessa, af aðkomu hans að hjólaskóflunni eftir hádegi á þriðjudag.

Steinþór segir að hið eina sem ferðalangurinn hafi getað tjáð sig um hafi verið hve kalt honum væri. Steinþór hringdi því í lögreglu sem kom og óskaði eftir að hún tæki við manninum. Hann segist ekki hafa velt sérstaklega fyrir sér manninum, en þó veitt því athygli að maðurinn var vel til hafður, í jakkafötum með undir úlpunni.

Þegar Steinþór fór að litast betur um sá hann að gesturinn hafði sett vélina í gang. Stýrishúsið var ólæst, lykillinn lauslega falinn þar og að auki hafði gleymst að slá út rafmagninu af vélinni um morguninn.

Borgaraleg handtaka

Í þann mund sem samtali Steinþórs og lögreglunnar var að ljúka bar að tvo vaska Seyðfirðinga sem voru að kanna færðina. Varð úr að þeir tóku manninn með sér og færðu hann á lögreglustöðina á Egilsstöðum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum framkvæmdu þeir með því borgaralega handtöku, sem sannarlega gerist ekki á hverjum degi á Austurlandi.

Manninum var stungið í fangaklefa á meðan lögregluþjónar fóru á vettvang til að kanna málið betur. Þegar lögreglan kom efst í Lönguhlíðina keyrði hún fram á bíl sem sat þar fastur. Út úr bílnum stigu karl og kona og veittu lögregluþjónarnir því athygli að hún var í brúðarkjól með öllu tilheyrandi.

Jens Hilmarsson, lögreglumaður sem fór á vettvang, segir ekki óalgegnt að Austurlandabúar sem hingað leggi leið sína komi hingað í brúðkaupsferðir og séu þá gjarnan með brúðarfötin með sig til þess að geta látið mynda sig í þeim við fallega áningarstaði.

Á leið í sjálft brúðkaupið

Bíllinn var losaður og fólkinu bent á að fylgja lögreglunni á stöðina á Egilsstöðum. Þegar þangað var komið tóku við samtöl um ástæður ferðarinnar. Þau voru nokkuð snúin, fólkið talaði takmarkaða ensku og lögregluþjónarnir enga kínversku. Samskiptin fóru því fram í gegnum þýðingartæki sem fólkið hafði meðferðis. Kom þá upp úr dúrnum að fólkið var á leið í hina bláleitu Seyðisfjarðarkirkju til að láta gifta sig.

Málinu var lokið hratt og örugglega á lögreglustöðinni á Egilsstöðum þar sem fundin var út hæfileg greiðsla af hálfu brúðgumans fyrir umferðarlagabrot, en hann hafði keyrt framhjá lokunarskilti og skemmt eina plasthlíf á snjóblásaranum, sem er í eigu Vegagerðarinnar. Hann var að auki fræddur um íslensk umferðarskilti og reglur.

Jens segir að brúðhjónin, einkum brúðurin, hafi að lokum séð spaugilegu hliðarnar á öllu saman en að skilnaði fékk hún að taka mynd af heitmanni sínum ásamt lögregluþjóni með sektarplaggið í fanginu.

Frá snjómokstri á Fjarðarheiði. Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.